14.8.09

Paunk!

Ég fór á tónleika í gær og er enn í hálfgerðu hamingjulosti. Maður veit svosem ekki hverju maður má eiga von á þegar maður fer á endurkomutónleika hjá menntaskólaböndum (úr annarra manna menntaskólum og fyrir manns tíð) sem maður þekkti bara tvö lög með þegar maður var einhversstaðar mjög snemma á táningsaldri. En endurkomutónleikar Mosa frænda, Grámosinn gólar, komu gríðarlega skemmtilega á óvart og fóru satt að segja bara fram úr mínum björtustu vonum.

Auk smellanna tveggja, Kötlu köldu og Ástin sigrar, spilaði bandið nokkur frumsamin lög í léttpaunkaðri taktinum og paunkaði svo ábreiður á nokkur eldri lög. Innlend sem erlend. Það er erfitt að lýsa því hvað nákvæmlega var svona mikil snilld. Bandið var mjög þétt og flutningurinn flottur, ég þekki ekkert hvort þessir strákar eru eitthvað að spila tónlist að staðaldri núna, en þeir eru allavega búnir að æfa sig geðveikt, ef þeir hafa ekkert gert síðustu 20 ár. Og svo var það bara sviðsframkoma og... allt.

Sigurður H. Pálsson sýndi á sér paunktrýnið. Það er rooooosalegt. Sigurður H. Ofurpaunk verður látinn brúka þetta í Hugleiknum í náinni framtíð. (Hugmynd kom upp um að setja upp Sid and Nancy.)

Kringum hrun heyrði ég einhverjar smávægilegar deilur um hvort paunkið "kæmi aftur" í einhverri mynd. Þeir sem upplifðu á sínum tíma fitjuðu uppá trýnin og töldu ólíklegt...yrði aldei nema lélegar eftirlíkingar, og hvaðha, en nú 2007-uðu þeir í Mosanum aðeins inn í einhver lög sín... og það virkaði. Talaði virkilega til fáránleika ýmiss í ástandinu. Líklega heitir það eitthvað annað, en ég hugsa að íslensk tónlist eigi eftir að verða reiðari á næstu árum. (Þá er ég ekki að tala um Bubba Morthens. Heldur nýtt fólk.) Og það mætti segja mér að áferðarfegurð vannillu undanfarinna ára léti eitthvað undan síga. Jafnvel mikið.

Ætli tími Mosa frænda sé ekki bara kominn?
En þeir ætla víst ekki að spila aðra tónleika.
Sem þýðir að við sem eyddum þúsundkalli og kvöldstund í þessa upplifun erum þvílíkt forréttindapakk.

Takk fyrir mig, Mosi frændi.
Hvíl í friði.

Engin ummæli: