Margir tala um að þeir séu að verða örmagna af reiði. Reiði sem brast á um svipað leyti og kreppan. Ég held ég sé ekki ein um að vera á öndverðum meiði.
Mér líður eins og það sé loksins búið að hrekja Voldemort frá völdum.
- Þegar græðgin skein úr augum toppanna á meðan stór hluti þjóðarinnar barðist við að ná endum saman.
- Þegar eyða þurfti stórfé í sendiráð í útlöndum og í ferðir forsetans til erlendisbrúks á meðan ekki var viðlit að hækka laun heilbrigðisstarfsfólks og leikskólakennara upp í mannsæmandi.
- Þegar forsætisráðherra beljaði um góðæri sem fæstir fundu fyrir og lét að því liggja að þeir sem leituðu til Mæðrastyrksnefndar vegna þess að þar væri ókeypis viðurgjörning að hafa, frekar en af neyð.
- Þegar almenningur taldi hag sinn vera að vænkast þar sem hann gat tekið hærri lán en hann gæti nokkurntíma borgað.
- Þegar stór hluti þjóðarinnar hefði heldur valið peningana en lífið.
- Þegar siðferðileg gildi voru úrelt og gamaldags og áttu ekki við ef hægt var að græða á því að horfa framhjá þeim.
- Þegar var í tísku að fljóta sofandi að feigðarósnum sem við syndum núna í.
Ég var úrvinda af reiði og pirru í "góðærinu" sem aldrei náði til nema um 10% þjóðarinnar.
Núna er Voldemort fallinn. Fylgjendur hans eru eitthvað að reyna að klóra í bakkann, rannsóknir ganga erfiðlega, eins og gengur. Ekki er enn ljóst hverjir koma til með að gista Azkaban. Margir segjast hafa verið "gabbaðir út í þetta." En sannleikurinn er að byrja að mjakast upp á yfirborðið.
Þessa dagana er ég ekki neitt að verða örmagna af reiði. Ég les endalaust af skrifum fólks sem tjáir skoðanir sínar af eldmóði. Sumum er ég sammála, öðrum ekki. En flestir sem tjá sig eru vakandi. Ég hef staðið og setið Borgarafundum og Mótmælafundum, hlustað á ræður og tárast af sammáli og gleði.
Ég er yfirkomin af feginleika.
Peningar eða ekki.
Evrópusambandið eða ekki.
Æseif, smæseif.
Siðblindudofanum er að létta.
Og við erum vöknuð.
20.8.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Guði eða einhverjum öðrum sé lof, að ég er ekki ein um þessa upplifun;)
Ég verð nú alveg reið þegar ég sé Jón Ásgeir á Range Rovernum sínum, vitandi að margt venjulegt fólk sem sogaðist inn í vitleysuna sér ekki fram á að geta haldið húsunum sínum. Sem eru kannski 1/3 eða 1/4 af húsinu hans. Þá þessu eina af húsunum hans. Jú, ég er öskureið. Ég er líka svo langt frá því að vera sannfærð um að nokkuð hafi breyst, er ekki ennþá sama ruglið í gangi inni í bönkunum? Eru menn ekki ennþá að heimta milljarða í bónusa fyrir að bjarga einhverju út úr fyrirtækjum sem þeir rústuðu? En jú, kannski erum við á réttri leið. Eða lögð af stað í áttina að réttri leið. En ég get nú eiginlega ekki sagt að ég hafi séð neinar stórkostlegar breytingar ennþá.
Það að menn eru loksins orðnir reiðir yfir ruglinu er mikil breyting.
Já það er að vísu rétt...
Ruglið byrjaði árið 1991. Breytingar verða kannski byrjaðar að sjást í efnahagslífinu eftir svona 10 - 15 ár, en ekkert gerist á einu ári. Eða tveimur. Kannski ekki einu sinni fimm.
En efnahagslífið er ekki eina lífið.
Menn eru enn fastir í því að máli skipti hver á mesta peninga og flottasta dótið, þó það sé nú með öfugum formerkjum.
En hugarfarsbyltingin er hafin.
Kannski Mammonsdýrkun láti eitthvað undan síga á næstu árum. Hvert hænufet í þá átt er stórsigur fyrir þjóðina.
Ég heyrði samlíkinguna um daginn að peningar hefðu svipuð áhrif á marga Íslendinga og brennivín á marga inúíta. Þetta finnst mér ekki ólíklegt. Margir þjóðfélagshópar erlendis hafa átt gríðarlega mikla peninga kynslóðum saman og til undantekninga heyrir að menn verði vítlausir á því. Íslendingur virðist ekki geta eignast milljón án þess að fá lánaðar 50 til 100 í viðbót og glata glórunni, siðvitundinni og sjálfum sér.
Því færri sem tapa sér í græðgi siðblindu, því minna verða menn troðnir undir, hlunnfarnir og látnir borga brúsann með öllu sínu alla ævi.
Alkóhólistum er lífið auðveldast hafi þeir ekki aðgang að áfengi. Íslendingar eru kannski heilbrigðastir blankir...
"En efnahagslífið er ekki eina lífið."
Það er mikið að þú segir eitthvað af viti frú Sigríður...
Halldór (Tolli) Magnússon
Það er frábært að fólk sé loks vaknað af þessum peningadoða og skuldasukki. Ég er hins vegar hrædd um að Voldemort sé ekki horfinn að eilífu heldur lifi áfram í bakhöfðum bankamanna, viðskiptajöfra og pólitíkusa. Ég er hrædd um að það sé verið að halda lífi í sama undirliggjandi kerfinu/hugsjóninni bæði á Íslandi og alveg greinilega erlendis.
Mikið er gott að efnahagslífið sé ekki eina lífið.
Nei ég segi eins og María Huld, ég held að það sé ennþá sama hugsunin í gangi á mörgum stöðum. En auðvitað verða engar alvöru breytingar á einu ári og ég er svo sannarlega sammála og afskaplega fegin því að við séum lögð af stað í einhverja aðra átt. Ég vil bara að þessir menn verði dæmdir fyrir landráð og dæmdir í útlegð, fari þeir bara og veri með sitt illa fengna fé.
Það væri nú líka ákveðin fullnægja í að fá að tjarga þá og fiðra. Og flengja.
En menn verða alltaf voðalega snúnir eitthvað þegar minnst er á skrílræðislegar aðgerðir. ;)
Skrifa ummæli