6.10.09

Að lifa október af. Dagur 6.

Er strax aðframkomin og dettur ekkert gott ráð í hug í dag. Nú er svo komið að ég er að missa rænuna af stressi yfir þessu styrkumsóknabrölti. Leiðbeinendur mínir eru allt í einu horfnir af yfirborði jarðar og hættir að svara tölvupósti. (Og ég lái þeim það ekki einusinni.) Enn er ég að bögglast við að skrifa lýsingu á verkefninu og veit ekki neitt um hvort ég er á "réttri leið" eða hvort "rétt leið" er einu sinni í boði í stöðunni. Ég á líklega að geta fundið þetta alltsaman út á sjálfri mér, með allar mínar gráður. Í staðinn er ég sybbin, stressuð og veit ekkert.

Hraðbáturinn er búinn að vera með eyrnabólgu, pensillín við því, sem honum finnst hroðalega vont, og magapínu af pensillíninu, og þar að auki líklega að fá tveggja ára jaxlana. Ég setti hann í hvíldarinnlögn á leikskólann í dag. Er öðrum þræði að bíða eftir að það verði hringt þaðan. Hvíldarinnlögnin er mest til að hvíla Rannsóknarskip sem er orðinn aldraður af álagi, eftir erfið umönnunarstörf undanfarna daga (og nætur.) Ennfremur flýtti ég háttatíma Unglingsins, í morgun. Nenni enganveginn að vekja menn hundraðsinnum og hafa svo morgunfýluna svífandi yfir vötnunum. Og þessa dagana eru mælarnir fljótir að fyllast.

Annars er systir mín poppstjarnan að snúa aftur úr vel heppnaðri, mánaðarlangri, tónleikaferð um Bandaríki Norður-Ameríku með hljómsveitinni The Foghorns. Bára ætlar að sofa úr sér hjá okkur í nokkra daga áður en hún flýgur aftur til frænda vorra í Noregi til að ljúka námi sínu. Ennfremur á ég von á foreldrunum í bæinn. Amman var komin með ömmubarnafráhvörf og ég gat séð henni fyrir fínustu afsökun. Hún ætlar að passa á meðan við hjónin bregðum okkur á íslensk-færeyska stuttverkahátíð á Seltjarnarnesinu um helgina.

Jæja. Best að skrifa eitthvað gáfulegt um máleiningar...

2 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Hey ég veit eitt gott ráð, bjóddu gamalli vinkonu til þín eða þér til gamallar vinkonu í My So Called Life kósíkvöld!

Sigga Lára sagði...

Hei! Gott ráð! Verður gengið í það eftir helgina!