Ég mæli eindregið með því að menn haldi sig við líkamsræktarplön af gríðarlegri elju. Sem ég hef ekki verið að gera undanfarna daga, því er nú verogmiður. En stressbrjálæði geta alltaf átt sér stað, og slær þá yfirleitt mörgu niður á sama tíma. Þess vegna hef ég hugsað mér að hlaupa seinnipartinn, og stóla á að fárviðrinu verði eitthvað farið að slota. Eins er veðrið að setja strik í reikninginn með pöntun á barnapössun sem ég ætlaði að fá senda alla leið frá Egilsstöðunum í dag, en vonandi getum við eitthvað fundið út úr því. Sama veður setti strik í ferðaáætlanir systur minnar poppstjörnunnar svo hún verður hjá okkur um helgina og getur þá vonandi eitthvað reddað málum í samstarfi við skólasálfræðinginn ef amman hættir alfarið við öll ferðaplön.
Annars brast bara á með gríðarlegum rólegheitum. Tímum sem ég átti að vera í í dag frestað vegna veikinda auk þess sem styrkumsókn 2 þarf víst ekki að berast fyrr en á mannamáli. Sú má líka vera á mannamáli og er því pís off keik miðað við þá sem ég varð gráhærð við að klára á miðvikudaginn.
Hraðbátur meikaði það líka á leikskólann í dag, öllum að óvörum, svo allir komust í vinnurnar sínar.
Þá er ekkert að gera nema krossa putta að Færeyingar komist til landsins svo hægt verði að halda fyrirhugaða fáþjóðlegu stuttverkahátíðina Margt smátt í Félagsheimili Seltjarnarness á morgun.
Ekki hefi ég nú staðið mig í því að plögga hana, en þar verða á boðstólnum einhver 20 stuttverk frá slatta af leikfélögum hérlendis auk einhverra fimm nýrra verka frá Færeyjum. Ég hef ekki hugmynd um hverjir vina minna frá eyjunum mæta, en gaman verður nú að hitta það fólk aftur. Einn þáttur eftir sjálfa mig verður á boðstólnum og annar eftir Rannsóknarskip, auk þess sem hann leikur í mínum þætti. Það er viðeigandi þar sem að á morgun verða einmitt liðin 5 ár frá því að við Rannsóknarskip hófum vegferð vora sem kærustupar og verðandi lífsförunautar, á haustfundi Bandalagsins á Akureyri. Í tilefni þess ætlum við að reyna að fara saman út að skemmta okkur aðeins með stuttverkahátíðaraðstandendum og gestum annað kvöld, ef áðurnefnd pössunarplön ganga upp.
Þá er best að setjast yfir verkefnislýsingu doktorsverkefnis og rannsóknaráætlun og gera það nú reglulega, reglulega vel, eftir efnum og aðstæðum. Annars er það nú svo að menn eru yfirleitt að sækja um styrki í doktorsverkefnin sín eftir að hafa unnið að þeim í svona ár, þannig að 1 og hálfan mánuð inn í ferlið er hálfbrjálað að vera að þessu. Enda, ef ég fær annan hvorn þessara styrkja verð ég svo montin að ég verð ekki viðmælandi næstu árin. (Og var það nú nóg samt.)
Verð líka aðeins að segja frá gítarnáminu. Það gengur hroðalega skemmtilega, þó heimalærdómur hafi vissulega verið af mjög skornum skammti. Það var gott hópströmm í tímanum í gær og ekki laust við að það sé að rifjast upp fyrir mér að ég æfði mig nú dáldið á þessu þegar ég var unglingur, og átti meiraðsegja rafmagnsgítar. Allskonar trakteringar með aðstoð gítarnaglar eru allavega að ganga vonum framar. Svo er þetta líka bara svo yfirmáta skemmtilegt. Að sitja og strömma Smells Like Teen Spirit á kassagítar, við 5. mann, er til dæmis bara ferlegt kikk.
Óverendát.
9.10.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Dö, ekki orð um Biedermann? Ekki eitt? Ekki?
Bannað að fjalla um sýningar fyrir frumsýningu. Sérstaklega ef maður missti bæði af byrjuninni og endinum.
Skrifa ummæli