22.12.09

Jólafýla og meðvirkni

Ég las einn magnaðasta jólafýlupistil sem ég hef lengi séð, um daginn. Hann Björgvin Valur (sem mér finnst reyndar oftast snjall) vill meina að aðventan dragi fram dauðasyndirnar 7 í öllum.

Þetta viðhorf hef ég oft heyrt. Og einu sinni var ég líka mjög á þessari skoðun. Þangað til ég fór að skoða málið. Komst til dæmis að því að þetta ætti ekki við um sjálfa mig. Mér þykið aðventan alveg æðislegur tími, en ég leggst ekkert í leti, ét ekki yfir mig, eyði ekki um efni fram, frekar en endranær, og stunda á flestan hátt sömu lifnaðarhætti og venjulega. Ef eitthvað er dunda ég meira með börnunum mínum, ég tek reyndar til fyrir jólin... aðallega vegna þess að það er ekki vanþörf á, og svo reyni ég að komast á einhverja tónleika, bókaupplestur eða annað menningartengt, kannski, einhverntíma. Og þegar ég hugsa út í það þekki ég engan sem hagar sér á þann hátt sem jólafýlupúkarnir fjargviðrast yfir. Þekki engan sem ekki les jólabækurnar sínar upp til agna. Upplifir desembermánuð á óhömdu neyslufylleríi með sjálfsásökunar og stresskryddi.

Ég hef líka tekið eftir því að jólafýlupúkarnir undanskilja oftar en ekki sjálfa sig. Jólastressið sem allir eru að tala um býr líka aðallega í útvarpinu. Jú, það eru kannski margir í kaupfélaginu og kringlunni, síðustu dagana fyrir jól, en mér sýnast nú yfirleitt flestir vera glaðir, bara. Og gjafainnkaup held ég að snúist hjá fæstum um að græðga á visa allt flotta dótið sem þeir hafa séð auglýst. Mest gaman er að finna eitthvað einstaklega snjallt (og helst verðlagt innan skynsamlegra marka) handa hverjum, sem viðkomandi vantar og langar í, án þess að hann viti það. Svoleiðis gjafir er líka mest gaman að fá.

Staðreyndin er sú að neyslufíklar, í hvaða neyslu sem er, nota öll tækifæri til að ofneyta. Hvort sem menn eru alkar, kaupalkar eða átfíklar. Þeir nota aðventuna sem afsökun. Eins og alla aðra tíma. Og það verða þeir sjálfir að gera sér grein fyrir og díla við.

En svakaleg má nú vera meðvirkni samfélagsins ef menn vilja helst leggja niður aðventuna til að forða þeim frá freistni?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einsog talað útúr mínu hjarta!
Takk fyrir frábæran pistil.
Gleðilega aðventu og gleðileg jól!
- Gangandi vegfarandi

Nafnlaus sagði...

Ætli þið Björgvin Valur hafið ekki nokkuð til ykkar máls bæði tvö, ef við gefum okkur að jólin séu í hlutverki fílsins góða.

Með gleðilegum og samt eilítið stessuðum jólakveðjum ;)

Hulda

Berglind sagði...

Ég man bara eftir þessum aðventuköstum frá því að ég vann í jólagjafabúð, ég held að ég þekki sjálf engan sem missir sig af stressi. Nei, þetta er bara næs tími með mandarínum og kertum (úr því að við vorum skikkuð til að skila verkefnum 5. desember). Og sundferðum í þessum hingað til dægilega desembermánuði. Og jóladaxkrá(svo?) Hugleix. Nei, stressið er ekki í nærumhverfi mínu.