25.1.10

Asnalegir niðurskurðið allsstaðar

Því meira sem ég hugsa um þetta, því asnalegra finnst mér það.

Ókei, það þarf að skera niður í heilbrigðis og menntakerfi. Hvaða vitglóru sjá menn í því að byrja á að skera lægstlaunuðustu (og mikilvægustu) "starfmenn á plani" eins og skólaliða og ræstingafólk, og senda það út í atvinnuleysið? Sama sparnaði væri alveg örugglega hægt að ná með því að saxa eitthvað á launin hjá toppum og millistjórnendum, sem btw voru þeir einu sem sáu einhverjar launahækkanir í "góðærinu".

("Ritstjóri" Morgunblaðsins setur hrunið innan gæsalappa, ég get hvorki haft hann sjálfan né "góðærið" utan þeirra.)

Kvikmyndagerð á undir högg að sækja. Allt sem heitir menningarmál. RÚV. Og allstaðar er byrjað að skrapa saman aurana á meðan krónunum er kastað sem aldrei fyrr.

RÚV.
Nú fíla ég Júróvísjón. En ég held að almennur skilningur myndi ríkja á því þó við tækjum ekki þátt, svona í blákreppunni. Allavega ekki með fokdýrri undankeppni í beinni. Mér finnst Spaugstofan líka skemmtileg. Og hafa gengið algjörlega í endurnýjun lífdaga við hrunið. En hún er líka alveg fokdýr. Og það sem meira er, mennirnir sem framleiða hana munu hreint ekki ganga atvinnulausir þó henni sé slaufað um óákveðinn tíma. Kastljósið er stundum ágætt. En stundum er það líka bara endurtekið stagl um það sem er nýbúið að vera í fréttunum. Þurfum við það 5 daga í viku? Og Útsvarið. Skemmtilegt. En er ekki séns að lifa án þess í smá tíma? Bara svona rétt þangað til við höfum efni á að halda það aftur? Og hvað með toppana 10 uppi í turni sem enginn veit hvað gera í vinnunni og eru með helminginn af hallanum í árslaun?

Ég held að við þurfum frekar fullmannaða fréttastofu, nægan fjölda þáttagerðarfólks og aukið svigrúm í ódýrari dagskrárgerð. Og svæðisútvörp, takk fyrir. Miðstýrðu fréttirnar eru höfuðborgarmiðaðar. Fólk þarf líka að fá fréttir af því hvað er að gerast í næsta nágrenni. Og morgunvaktina aftur á Rás 1, takk fyrir. Að KK ólöstuðum, hann má vera á öðrum tíma.

Bara tímaspursmál hvenær maður sækir um starfið hans Páls...

3 ummæli:

Varríus sagði...

Sé ekkert point með Útsvari lengur :)

Og íþróttaFRÉTTIR - hvað er það?

Skil alveg "þörf" fyrir útsendingar frá viðburðum. (sumar) íþróttir eru besta sjónvarpsefni sem til er. En fréttir af úrslitum í öllum fréttatímum er glóruleysið sjálft.

BerglindS sagði...

Mér skilst að Júróvisjón standi undir sér. Sjálfri væri mér sama þótt hún væri skorin niður fyrir fullt og allt.

Eddan og Gríman voru aldrei gott sjónvarpsefni þótt ugglaust hafi verið gaman hjá aðstandendum.

Söngva(ra)keppni framhaldsskólanna var skorin þegar í fyrra. Ég sé eftir svoleiðis og Skrekk ef hann er skorinn af því að ég held að svona viðburðir hafi uppeldisgildi með skemmtigildi (a.m.k. fyrir aðstandendur).

Útsvar hlýtur að fjúka eftir veturinn. Sé eftir Ljótu hálfvitunum en það er samt ekki ástæðan.

En svo held ég að RÚV geti varla flokkast sem miðill allra landsmanna ef íslenskar bíómyndir fá þar ekki lengur inni. Svei mér ef ég er ekki bara hneyksluð á þeirri ákvörðun.

Sigga Lára sagði...

Gríman var ágæt, en þá og því aðeins að maður væri staddur í hrúgu í setustofunni að Húsabakka í Svarfaðardal ásamt hinum fokkíng amatörunum.

Ég sé reyndar sóknarfæri á afar miklu skemmtilegra kvöldi þar sem Húsbekkingar hafa "inside man" í Þjollanum, fá verðlaunahafa í Smessi og leika svo alltsaman af innlifun og áhuga fyrir samnemendur.

Miklu skemmtilegra.