23.2.10

Afmennskun auðmanna

Frjálshyggjufélagið sendi frá sér áhugaverða ályktun á dögunum. Hún var löng og tyrfin og afar illa samin, en það af henni sem komst í fréttir var sú að orðið auðmaður væri hjá vinstrimönnum farið að hljóma eins og gyðingur hjá áróðursmeisturum nasista. Ansi djúpt í árinni tekið. Og ekki rétt.
Ennþá.

Undanfari helfarar gyðinga var nokkuð langur. Ef stiklað er á virkilega stóru og einfaldað mjög, þá átti Þýskaland í alvarlegri kreppu eftir fyrra stríð. Nokkrir viðskiptamenn sáu sér þó leik á borði og tókst að auðgast talsvert (þó ekki nokkurn skapaðan hlut miðað við það sem við sáum í góðærinu, í dag héti það "að hafa það sæmilegt") sem sagt, ákveðnum mönnum sem voru slungnir í viðskiptum tókst að hafa það sæmilegt í gegnum kreppu millistríðsáranna, og líka í gegnum hrunið 1929 og eftirleik þess. Margir þessarra einstaklinga voru gyðingar sem gáfu trúbræðrum sínum og vinum ýmsar ívilnanir sem öðrum buðust ekki. Á hinn bógin voru þeir ríku sem sveltandi almúginn þurfti að horfa uppá alls ekki allir gyðingar og því síður voru allir gyðingar ríkir.

Þetta varð til þess að þýskur almenningur var mjög tilbúinn, og tók því raunar fagnandi, þegar nasistaflokkurinn tók til við að hreinsa til í þessari auðklíku og nota eigur hennar til að borga erlendar skuldir ríkisins. Og þetta hljómar kunnuglega.

Það sem gerðist í Þýskalandi var að gyðingar voru afmennskaðir. Enda áttu menn erfitt með að skilja hvernig ákveðnir einstaklingar gátu verið svo harðbrjósta að sölsa undir sig auð á meðan almenningur og ríkið barðist í bökkum og komst varla (og margir ekki) af. Var það mannlegt? Og það er í rauninni óskiljanlegt, frá mannúðarsjónarmiðum. Hins vegar var nokkuð stórt stökk yfir í að halda því fram að þessir menn hafi verið eintómir gyðingar og allir gyðingar. En þá ber að hafa í huga hversu mikið auðveldara var að hafa stjórn á upplýsingaflæði þá en nú.

Ég hef tilhneigingu til að bera saman hrunið og lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Reyndar er ótrúlegt hversu margt í tíðaranda góðærisins og tíðaranda stríðsins er líkt. Sérstaklega þöggun á allri gagnrýni sem tíðkaðist á báðum tímum. Í góðærinu var í rauninni það sama að gerast og nú. Það voru ekki nema fáir sem auðguðust. Þorri þjóðarinnar barðist í bökkum og verðlag hækkaði. Það hét bara ekki verðbólga heldur "þensla" og það var bannað að tala um að einhverjir hefðu það annað en ótrúlega gott. Til dæmis var bara lítið minnst á Vestfirði, svona yfirhöfuð.

Í dag er staðan á Íslandi þannig að almenningur á að borga, auk allra sinna skulda, fleiriþúsund milljarða af skuldum sem örfáir einstaklingar stofnuðu til. En í dag sér upplýsingasamfélagið til þess að við vitum hvaða einstaklingar eiga í hlut. Og að sjálfsögðu beinist mesta reiðin gegn þeim sem bárust mest á í góðærinu. Þeir sem bókstaflega stráðu peningunum í kringum sig. Það sem við vissum ekki þá, en vitum núna, er að þetta voru okkar peningar. Þetta voru peningar sem nú verða teknir af almannaþjónustu og okkur persónulega í gegnum skatta og vexti.

Og þeir eru ekki hættir.

Á meðan almenningur og þjóðfélagið horfir frammá allskonar gjaldþrot eru sömu einstaklingar enn í felum með milljarðana sína. Lifa kóngalífi. Hamast við að þvo skuldirnar hver af öðrum.

Hversu mennskir eru þeir menn sem hugsa um það eitt að halda í milljarðana sem þeim mun aldrei endast ævin til að eyða, hversu hátt sem þeir lifa, og vera í náðinni hjá fámennri klíku auðseggja, en láta sig einu gilda hvernig almenningur fósturjarðarinnar hefur það? Að skerða þurfi þá grunnþjónustu sem ekki græddi á góðærinu? Hvers konar þjóðníðingar eru það sem setja eigin pólitíska frama framar þjóðarhag í þessu ástandi? Og þykjast ekkert sjá að því að vera með puttana bæði í stjórnmálum og viðskiptalífi? Hvers konar maður er það sem lætur sér í léttu rúmi liggja að vera "persona non grata" í sínu heimalandi, svo lengi sem hann getur lifað eins hátt og hann vill af eigum sínum?

Er þetta mennskt?

Í ályktun frjálshyggjufélagsins átti að felast hræðsluáróður. Hann hljóðaði svona: Sauðsvartur almúginn haldi kjafti og borgi brúsann, annars er hann eins og nasistar í seinni heimsstyrjöldinni.

Ég held hins vegar að raunveruleg hætta sé á ferðum. Í þjóðfélaginu kraumar heilög og réttlát reiði sem á eftir að magnast ef núverandi ástand fær að stigmagnast í 13 ár. Þá verðum við líka tilbúin fyrir Hitler.

Ríkisvaldið verður að aðskilja sig frá viðskiptalífinu. Og ríkisvaldið verður að skipta sér af í viðskiptalífinu. Því lengur sem beðið er með það, því meiri verður fasisminn, og jafnvel mannréttindabrotin, þegar af því loksins verður að einhver taki sig til og "hreinsi til".

Líkingin við Þýskaland millistríðsáranna er ekkert alveg út í hött.
En það er ekki blanki meirihlutinn sem ætti að vera hræddur.

5 ummæli:

Árný sagði...

Þetta er frábær pistill hjá þér - lesi hann sem flestir! Ég ætla að benda fólki á að gera það!

Varríus sagði...

Engu að síður: rót gyðingahaturs í evrópu er ansi dýpri en óánægja með auðsöfnun bissnessmanna á millistríðsárunum.

En jarðvegurinn fyrir sterkan leiðtoga með einfaldar lausnir er vissulega fyrir hendi. Bendi t.d. á það sem Teitur Atlason er að skrifa um Nýtt Ísland þessa dagana.

Varríus sagði...

... og þó ég sé hlynntur Stjórnlagaþingi og grundvallarendurbótum á samfélagi voru þá má alveg færa rök fyrir því að jarðvegurinn sé í augnablikinu of súr til að út úr því komi góð niðurstaða. Og of mörg lík grafin rétt undir yfirborðinu til að fólk geti komist að þolanlegri niðurstöðu.

Sigga Lára sagði...

Já, gyðingamálin voru flóknari og áttu sér lengri og dýpri rætur. Enda hef ég ekki mikla trú á að útrásarvíkingar endi í gasklefunum.

Það er rétt. Erfitt að gera mikið af viti "í málunum" þessa dagana. Og líka erfitt að bíða eftir niðurstöðum rannsókna, og svo framvegis.

Sennilega mikilvægast að stjórnvöld séu alveg Poll Róleg og haldi sönsum. Hvernig sem við látum.
:)

En hlutirnir verða að mjakast og það þarf að sjást. Algjör stöðnun í spillingarhítinni held ég að gæti verið hættuleg.

Aðvaranir Teits eru mjög þarfar.

Varríus sagði...

"Hlutirnir verða að mjakast og það verður að sjást"

Nokkurnvegin kjarni málsins.

Ef nú bara allir væru sammála um hver væri hin rétta átt sem hlutirnir eiga að mjakast í :)