26.3.10

Að bresta á með fermingu!

Þá er þetta allt að hafast. Þessi gaur, sem var svona ponsulítill bara í fyrradag, er að fara að fermast.

Í gærkvöldi straujaði ég dúka í klukkutíma. Það var nú leiðinlegt. Gerði ennfremur einhverjar tilraunir til útlitsuppflikkana á sjálfri mér, endað með því að ég brenndi næstum af mér lappirnar í full-ofstopamikilli háreyðingartilraun. Spennandi kvöld.

Dúkar verða sóttir eftir hádegi, salnum verður stillt upp, dúkað og dekkað upp í nokkuð beinu framhaldi af því. Feðgar sendir á æfingu í kirkjunni. (Yngri systkini eru ekki enn í kirkjum hæf og fá ekki að vera með.)

Á morgun verður myndað, keypt inn, væntanlega bakað (ég er reyndar svo lánsöm að það gerist alfarið á öðrum heimilum,) og blómaskreytingar sóttar.

Á sunnudag verður síðan fermt, með bravör og glæsibrag og allir éta eins og þér géta.

Á mánudag verður síðan feginn dagur. Dúkum og blómaskreytingapottum skilað. Litlu á leikskólann, ég í vinnuna, stóru feðgar heima að jafna sig. (Og leika sér að fermingargjöfum, vænti ég.)

Á þriðjudag verður síðan brunað norður og verður norðurforeldrum Smábáts þar með falið framkvæmdavald yfir inngöngum vorum og útöngum þar sem risaveisla í tilefni áðurnefndrar fermingar skal haldin að Hrafnagili laugardaginn 3. apríl. Mikið verður um dýrðir, hist og spjallað.

Á norðlensku páskunum hef ég líka mína foreldra til fulltingis og fá þau að passa óhóflega. Aldrei að vita nema við hjónin fáum jafnvel að gera okkur glaðan dag og fara út úr húsi, að kvöldi dags, bæði samtímis!

Hmmm. Best að gá hvað LA ætlar að bedrífa um páskana...

---

Viðbót: Jú, við hjónin eigum stefnumót á Akureyrinni og ætlum út að borða og í leikhús á skírdag. Eyddum annars seinnipartinum í að undirbúa salinn þar sem veislan á að vera. Og næst þegar ég fermi, árið 2020, ætla ég ekki að eiga 2 - 4 ára börn.

Það er bara of mikið vesen.

2 ummæli:

Bára sagði...

Til hamingju með fermingardrenginn!

Varríus sagði...

Til hamingju öll!

Ef þið hjónin eigið frítíma um páskið þá eru Hálfvitar með árlega skemmtan í Skjólbrekku í Mývatnssveit föstudaginn langa og á laugardaginn í Félagsheimili Húsavíkur.

Blogger á bara eitt orð um það: blismse