20.4.10

Horfur á flugi...

Nú lítur úr fyrir að Rannsóknarskip fari ekki til Danaveldis í dag. Nema þá að hann sigli.
Að öðru leyti er ég svolítið að fíla þetta.

Í staðinn fyrir að áætlanir séu ferkantaðar og ófrávíkjanlegar og naglfastar, hangi á ofurskipulagningu og hámörkun gróða, í fjárhagslegu sem tímasparnaðarlegu samhengi, er þetta meira svona... já, það eru nokkuð góðar horfur á flugi ... kannski, bara.

Fullt af fólki er annarsstaðar en það ætti að vera. Það skiptir mismiklu máli. En mér finnst það skjóta mjög skökku við í umræðunni þegar menn vilja fljúga, þó svo að flugvélarnar hrapi kannski, vegna þess að þeir séu að tapa svo miklum peningum á að gera það ekki.

Alveg, peningana eða lífin? Allt í lagi að taka sénsinn. Til að tapa ekki peningum.

Fær mig til að hugsa um verkaskiptinguna og framþróunina og hvort við höfum endilega gengið til góðs. Var endilega góð hugmynd að taka mannlífið, njörfa það niður í exelskjöl svo hægt væri að maximæsa proffits fyrir örfáa einstaklinga? Er endilega best að við séum eins og maurar í maurabúi, lifum í klessu á milli klukkunnar og bankareikningsins? Að sumir þurfi að vinna allt of mikið og hafi vart mannréttindi á vinnutíma á meðan fullt af fólki hefur ekkert að gera?
Er þetta virkilega besta sístemið?

Og var ekki tilgangurinn með uppáfindingu verkaskiptingar í mannlegu samfélagi að allir gætu haft það ögn þægilegra? Hvílt sig til skiptis? Var hann sá að örfáir ættu að fá að eiga alheiminn, rorrandi í spikinu og ofneyslu í hvívetna á meðan almúginn þjáðist ýmist af of eða van vinnu, vita bjargráðalaus og alltaf hálfpartinn á horreiminni?

Hvernig væri að þetta væri bara: ... nei, sorrí, flugmaðurinn er sloj og sá sem hefði getað leyst hann af ætlar frekar að heimsækja ömmu sína í dag.
Er ykkur ekki sama þó þið farið bara á morgun?

Stundum langar mig að flytja til kaótískari heimshluta.

Engin ummæli: