31.5.10

Þarf að "bjarga" peningakerfinu?

Það þarf að gera fullt hérna. Verkefni sem þyrfti að klára, allar stofnanir í landinu eru undirmannaðar þeir sem á annað borð hafa vinnu eru flestir hverjir að drepast úr ofvinnu.

Og fullt af fólki er á atvinnuleysisskrá. Vantar eitthvað að gera.

Og það er nóg af öllu hérna. Við framleiðum svo mikinn mat að við flytjum haug af honum út. Svo við ættum í staðinn að geta fengið fullt af krappi frá útlöndum.

Það er til of mikið af húsnæði. Og föt og drasl til að yfirfylla öll heimili í landinu að eilífu, amen.

Er ekki frekar brenglað að skortur á dótinu sem við fundum uppá fyrir einhverjum árhundruðum til að auðvelda vöruskipti, skuli nú koma í veg fyrir að hægt sé að skiptast á nokkrum sköpuðum hlut?

Var þar svona sem við hugsuðum verkaskiptinguna?
Átti endilega að verða til "peningakerfi" sem endaði á því að éta sjálft sig?

Desperasjón samtímans gengur út á að "bjarga peningakerfinu". Menn sjá alls enga framtíð utan þess og spyrja í örvæntingu: "Hvað á að koma í staðinn?"

Já, Jiminn. Hvað á þá að skilja á milli hver lifir og hver deyr? Hver vinnur fyrir milljón á klukkutíma og hver þrælar alla ævi fyrir svipaðir upphæð? Almáttugur í upphæðum, hvað á þá að sjá um misskiptinguna og óréttlætið? Halda pöplinum í skefjum meðan upparnir skíta gullinu? Hvaða afsökun eigum við þá að hafa fyrir því að svelta heilu heimsálfurnar á meðan við hendum hálfum pizzum og drepum okkur úr offitu?

Og hvað með framþróun mannkyns á plánetunni? Við vitum alveg að við erum að kála öllu lífríki jarðar smátt og smátt. Við getum samt ekki hætt því. Það er nefnilega ekki gróðavænlegt. Og tækniframfarir eru að þróast í undarlegar áttir. Ættu þær ekki að einfalda lífið? En, nei. Fleiri og flóknari græjur þarf það að heita. Og heill frumskógur af því þannig að þarfir og gerviþarfir séu ósundurgreinanlegar. Til þess að það sé hægt að selja meira krapp.
Maximæs Proffits, heitir það og er hið heilaga lögmál og undirstaða alls sem er.

En mikilvægisminnkun peninga er svosem engin bylting, allsstaðar.

Um áraraðir hafa fámennari sveitarfélög á Íslandi t.a.m. átt húsnæði undir sína kennara. Minni sjúkrahús hafa átt læknabústaði. Prestssetur eru til. Bæjarfélög og stofnanir eiga enga peninga í dag. En þau eiga ýmislegt annað. Svosem óseljanlegar fasteignir. Þegar menn leita að styrkjum til að gera eitthvað skemmtilegt, eins og að halda leiklistarhátíðir, eru það í rauninni ekki peningar sem menn vantar. Heldur matur, aðstaða, gisting... Og allt mögulegt er til í dag. Og margt af því er óseljanlegt.

Það eru nefnilega öngvir peningar til.

Líklega það besta sem komið hefur fyrir samfélag jarðarbúa.

4 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Heyr heyr

Sigurvin sagði...

Það er akkúrat peningakerfið sem fólk ætti að vera að ræða í dag og hvað gæti komið í staðin. Það skiptir nefninlega litlu/engu máli hvað stofnanir og fyrirtæki gera innan þessa kerfis ef raunin er að það hefur runnið sitt skeið, þær/þau eiga, almennt séð, enga möguleika á að standa við sínar fjárskuldbindingar til lengri tíma litið.

Verst að fjölmiðlar virðast ekki hafa neinn áhuga á að fjalla um þetta, einhverra hluta vegna.

Sigga Lára sagði...

Ég held að mjög fáir séu til í að horfast í augu við þessa staðreynd, ennþá. Og þeir sem völdin/fjármunina hafa vinna líka ötullega að því að þessi hlið málsins sé ekki rædd. Þeir eru vissulega til sem halda enn að tilvist peningakerfisins sé þeim í hag.

Spurning hversu slæmt ástandið þarf að verða áður en það gerist.

Líklega hrynur restin af fjármálakerfi heimsins í hausinn á okkur bráðum. Spurning hvað menn gera þá.

Líklega verður almenningur á undan stofnunum/stjórnvöldum/fjölmiðlum að byrja að "halda framhjá" peningunum og neyslubrjálæðinu. Eins og maður er þegar farinn að sjá.

Þá fara menn að skoða dæmi eins og Venusarverkefnið. ;)

Sigurvin sagði...

Hmmm... Þó að þeir séu fáir, held ég að þeim fari nú fjölgandi sem átta sig á göllunum. Ég er allavega að rekast á fólk sem fattar þetta (eða fattar ekki hvernig núverandi kerfi á að ganga upp). Það þurfa hins vegar að koma fram hugmyndir um hvað skal koma í stað þess kerfis sem við búum við núna. Ég hef ekki séð neinar harðar raunhæfar hugmyndir í þá veru ennþá.

Ég held að Venusarverkefnið veiti góða og heilbrigða framtíðarsýn, en leiðin þangað er löng og þarf að taka í mörgum skrefum. Ef mannkynið myndi ákveða að það er ákvörðunarstaðurinn, þarf að ákveða leiðina og fyrsta skrefið. Að gera þetta í einu stökki er ógerlegt, að ég tel.