3.6.10

Ekki neitt um neitt neitt

Bloggaði þvílíkt í morgun. Svo þvílíkt að dæmið breyttist í grein.

Fór líka á Sex & the City 2 í gær. Hún átti ágæta spretti, en tískusýningin varð full-fyrirferðarmikil. Eins og í fyrri myndinni.
Þori ekki að segja meira. Það gæti umpólast og orðið grein.

Annars er talsvert sársaukaminna að vera í vinnunni í dag en í blíðunni í gær. Ég held ég hafi sett einhverskonar met í að glápa á tölvuna og nenna engu. Það er komið sumar! En ég missti af því þegar það gerðist.

Hraðbátur blómstrar í nýja leikskólanum sínum og bæði börnin vilja helst aldrei koma inn og eru jafnan eins og múlattar á litinn. Af sól og skít. Í bígerð er að versla hljól undir Freigátuna. Hraðbátur á þríhjól. En þegar það gerist þurfum við líklega að vera undir það búin að leggjast alfarið út. Sem er svosem ágætt. Sjónvarpið er ónýtt.

Í litla gamla sjónvarpinu mínu erum við þó búin að komast í gegnum Twin Peaks nú á vordögum, frá upphafi til enda. Það var gaman. (Nenni ekki að skrifa meira. Greinarhættan.)

Fór með litlu ormana í kaffi og kókómjólk í ráðhúsið í Gnarrenburg í gær. Allt annað líf, sko.

Svo fer að styttast í að Móðurskip haldi í fyrstu útlegð sumarsins af þremur. Ætla á Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga sem í þetta sinn verður haldinn á Húnavöllum. Þar verður bæði hægt að leikstýra og skrifa. En ég ætla að syngja. Og vera dugleg að æfa mig að spila á gítar. Hluti af lífstíðarverkefninu „að verða sæmileg í mörgu en reglulega góð í engu“ sem nú er í gangi.

Foreldrar mínir verða í bænum á meðan. Ég missi af þeim en börnin verða væntanlega afar velumséð og Rannsóknarskip í golfi.

Engin ummæli: