10.5.10

Rólátabelgir


Þessa dagana er gríðarlega mikið hafst við utandyra. Þannig dvöldum við hjónin til skiptist með yngri börnin á rólóum miðborgarinnar obbann af deginum í gær.

Á einum tímapunkti, og reyndar lengi, vorum við á Tjarnarborgarróló. Þar var margt um manninn og flest börnin að leika sér að leiktækjum svona eins og venjur gera ráð fyrir. Ungur maður stundaði myndarlegan bakarísrekstur í kofa í sandkassanum. Börnin mín hlupu hins vegar öskrandi um allt á æðisgengnum flótta undan ímynduðu skrímsli.

Ég velti dáldið fyrir mér hvort ég ætti að þykjast eiga einhver önnur börn ... nei, ég lýg því. Ég er ferlega montin af því hvað þau hafa mikið ímyndunarafl. Mér gengur ekkert að venja þau á eitthvað gláp. Þau endast takmarkað yfir sjónvarpi nema þau séu aðframkomin af þreytu. Hins vegar eru þau mjög hrifin af tónlistarmyndböndum á Youtube. Þar eru They Might Be Giants í uppáhaldi. Og ekki endilega barnalögin þeirra. Helst reyndar þau sem eru með hauskúpum, múmíum og blóði. Nýlega hafa ákveðin lög með Jack Johnson bæst í hópinn.

Dótið þeirra er yfirleitt ekki notað eins og „til er ætlast“. Það endar yfirleitt sem einhverskonar uppfyllingarefni eða er haft fyrir eitthvað annað en það er í einhverjum svakalegum leik þar sem úlfar, ljón, skipsskaðar og önnur ævintýri koma yfirleitt við sögu. Litir, pennar og öll skriffæri eru reyndar notuð mikið og rétt. En reyndar ekkert endilega á þartilgerð blöð eða litabækur en það er önnur saga. Og Freigátan hefur fólk og skepnur í litabókunum sínum undantekningalítið með rauð augu.

Annars, í óspurðum fréttum, unglingurinn skreppur norður í land á miðvikudaginn, ef aska leyfir. Móðir vor ætlar kannski að kíkja á okkur um helgina, ef aska leyfir. Á föstudaginn þarf ég að tala við norskan-danskan áhugaleikhúsmann um leiklist, ef aska leyfir (þeir sem fatta hversu fyndin einmitt þessi þjóðblanda af áhugaleikhúsmanni er, njóti) annars er brjálað að gera, þó ýmislegt hangi klárlega á öskunni.

Svo er ég að klára aðstoðarkennsluna í því sem ég kunni lítið í og byrja að undirbúa kennsluna í því sem ég veit ekkert um.

Semsagt, úr öskunni í eldinn...

Engin ummæli: