Hóf daginn á því að hlusta á viðtal við Pál Skúlason sem var í sjónvarpinu í gær. Svo rignir inn framboðum frá góðu fólki á stjórnlagaþing. Ég er búin að ákveða að ég ætla að kjósa gott fólk þangað. Soldið klárt og velþenkjandi, almennilegt fólk sem er í góðu sambandi við sjálft sig og nennir að vinna vinnuna sína. Ég ætla ekki að afskrifa stjórnlagaþingið sem eitthvað plattform fyrir "ríka og fræga" eins og ég sé að margir eru búnir að gera. Ég neita að gera ráð fyrir að meirihluti Íslendinga séu fávitar.
Hér er tækifæri til að prófa hvernig persónukjör virkar. Ef við kjósum tóma fávita og framapotara til þessarar vinnu hefi ég hugsað mér að fara í fýlu. Sem er svosem engin breyting. Fer maður ekki í hálfgerða fýlu yfir öðrum hverjum fréttatíma, hvort sem maður vill eður ei?
Svo heldur maður bara áfram að undirbúa hreppaflutninga til Vancouver 2013. (Þ.e.a.s. ef ekki kemur heimsendir 2012 eða sólstormur 2013 sem afnemur rafmagnið. Held ég nenni ekkert að róa þangað, sko.)
Mér finnst heilmargir vera orðnir reiði-alkar. Margir urðu reiðir í október 2008 og hafa bara haldið því við. Enda alveg endalaust hægt að finna sér hluti til að verða reiður yfir, á Íslandi í dag. En fólk verður vitlaust af þessu. Það er hægt að vera í stanslausu adrenalín-rússi af pirringi og reiði yfir hvað allir séu nú vitlausir/spilltir/vondir/lélegir í sínu. En það er hægt á öllum tímum. Hver þekkir ekki allavega einn svona krónískt pirraðan kall?
Ég dett stundum í þetta. Gerði það sérstaklega fyrst eftir hrun. Þetta var bara svo góð tilfinning. Réttlát Reiði. Að fá loksins "réttmæta" ástæðu til að vera brjálaður út í þá sem maður fyrirleit fyrir. Dásamlegt rúss það.
Auðvitað er það síðan kjaftæði. Ákveðin mótsögn í því að maður kalli sig Zeitgeistara, andstæðing auðhyggju og séreignarkerfis og finnist maður síðan maklegt og réttvíst að hnýta í fólk vegna þess að það tók alla PENINGANA! Rugl.
Palli Skúla var ekkert vitlaus í þessu viðtali, frekar en fyrri daginn. Og hann benti á eitt. Við (allavega Íslendingar, mögulega Vesturheimskingjar, kannski meiraðsegja mannkynið) höfum tilhneigingu til að vaða áfram. Gera bara eitthvað. Framkvæma strax allskonar vanhugsað. Þegar samfélagið er fullt af kjaftæði, mótsögnum og bulli, eins og það hefur verið um langt skeið, þarf ekki bara að stoppa aðeins og spekúlera í því hvað þarf að gera eða gerast?
Akkúrat núna held ég að engir tveir í þjóðfélaginu séu alveg sammála um það.
Ótrúlega margir alveg brjálaðir yfir ótrúlega mörgu, samt. Og hafa ekki allir jafnhaldgóðar ástæður fyrir því. Ef ekki vill betur getur maður orðið brjálaður fyrir hönd einhvers annars.
Ég held að á Íslandi sé mestanpart gott fólk.
En mörg erum við ferlega vitlaus.
Aðallega vegna þess að við höldum alltaf að við vitum allt.
Öfugt við Sókrates.
Og nú er best að gá hvað ég þekkingu ég ætlaði að skapa mannkyninu með þrotlausum rannsóknum í dag.
20.10.10
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli