22.10.10

Kálver!

Þetta hér er það snjallasta sem ég hef heyrt lengi. Ég vona að þessi frábæra hugmynd verði að veruleika. Lífræn ofurgróðurhús. Mögulega verður til þess að við höfum eitthvað hollt að éta hérna, þó við séum á hausnum. Í tilefni þessa ætla ég (í algjöru óleyfi) að birta texta sem spáglöggur maður samdi snemma á 10. áratugnum.


SÚRKÁL
Allt er hér í niðurníðslu,
norpar þjóð með víli og voli,
útgerðin í árans kreppu,
iðnaður í kaldakoli.
Hagvöxturinn hægir á sér,
hallinn nú er
hundrað þúsund milljón krónur.
Æ, því er nú ver.

(Svo er sagt við missum bráðum Bandaríkjaher!)

Verslunin er voða lítil,
viðskiptin í skötulíki,
sölutekjur minnka mikið,
margur þó að skattinn svíki.
Alltaf rýrnar greiðslugetan,
gatið nú er
hundraðþúsundmilljón krónur,
æ, því er nú ver.

Ég held það sé að sökkva þetta skítblanka sker.

Hvað er það sem gefur gróða í hönd?
Súrkál!
Gjaldeyristekjur og viðskiptabönd?
Súrkál!
Súrkálið hagfótinn hressir best.
Og hagnaðarvonin læknar flest.
Súrkál!

Bissnessmenn þeir bjarga öllu,
byggja upp með geysisnjöllu
hugarflugi og heppni í spilum,
halda öllu í góðum skilum.
Hagvöxturinn herðir á sér,
hallanum er
snúið upp í ofsagróða
eins og vera ber.

(Og erlent fjármagn okkur gerir alla ríka hér!)

Hvað er það sem gefur gróða í hönd?
Súrkál!
Gjaldeyristekjur og viðskiptabönd?
Súrkál!
Súrkálið hagfótinn hressir best.
Og hagnaðarvonin læknar flest
Súrkál!
Súrkál!

Árni Hjartarson
Fermingarbarnamótið, Hugleikur, 1992

Þarna er sá framsýni náttúrulega að deila á allsherjarhugmyndir um að redda landinu úr skítnum með einum ofuriðnaði. Sem átti að vera álið, þá eins og nú. Þetta með kálið var náttúrulega útúrsnúningur. Bara flott af því að það var svo asnalegt.
En nú er öldin önnur. Bókstaflega. Og menn alveg að átta sig, held ég, á því að það er vissara að eiga eitthvað að éta. Meira að segja getur alveg komið sér vel að búa það til heima hjá sér. Svona til dæmis þegar fjármálabröltið fer til fjandans, eins og um daginn.

Mig langar allavega frekar að vinna í ofurgróðurhúsi heldur en álveri. Og held að það sé hollara.

Engin ummæli: