4.11.10
Lækjarbrekka og Social Network
Í fréttum er það helst að Rannsóknarskip á afmæli á morgun, foreldrin mín koma í bæinn í dag, reyndar í öðrum erindagjörðum, en ætla að hefja helgina á því að passa ormana fyrir mig í kvöld svo við Árni getum skroppið út að borða og í bíó. Stefnan tekin á Lækjarbrekku og Social Network.
Í tilefni dagsins klippti ég á mér toppinn og ekki er ólíklegt að ég skreppi niðrí bæ í afmælisgjafaleit.
Annars er þvílíkt jólakortaveður úti núna. (Fagra og jólalega tréð á meðfylgjandi mynd er reyndar frá Egilsstaðajólum fyrir 3 árum eða svo.) Kirkjugarðurinn við Suðurgötu var alveg dásamlegur við sólarupprás og ég spáði dáldið í hvers vegna mér hefði ekki hugkvæmst að vera með myndavél.
Í framhaldinu fór ég að spá í hvort þetta væri ekki týpískt fyrir hina innri frekju nútímafólksins. Það er ekki nóg að sjá og upplifa eitthvað dásamlega fagurt og njóta þess, heldur þarf að festa það á filmu svo maður geti séð það alltaf og hvenær sem maður vill. Það þarf alltaf að vera hægt að gera allt hvenær sem maður vill. Við missum af öllu af því að á meðan við erum að upplifa það erum við að reyna að finna leið til að upplifa það sama aftur. Hvenær sem við viljum.
Éld þetta sé kannski vitleysa.
Kannski er alveg nóg að ganga einu sinni framhjá kirkjugarðinum við Suðurgötu fyrsta daginn sem hann er í jólafötunum og anda að sér snjólyktinni á meðan. Vilji maður njóta þess lengur er hægt að gera svolítið alveg byltingarkennt.
Nema staðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli