3.11.10

Nenni Siggi

Eins og hverju ætli maður nenni í dag?

Það er opinberlega orðið alveg biksvart heimskautamyrkur úti þegar maður fer í vinnuna. Og brjálæðislega kalt, ofan í kaupið. Og ég hékk heima með Freigátuna sem var næstum alveg hætt að vera lasin í gær. Hún hékk mest í tölvunni og horfði á They Might Be Giants myndbönd. Ég hékk og horfði á How I Met Your Mother í akkorði. Og er búin með það sem ég á af því.

Ég verð að fara að gera eitthvað.

Annars var Allrasálnamessa í gær. Daginn þaráður var Allraheilagramessa. Ég fór að gúggla þessu þegar ég mundi ekki hvort var daginn eftir Hrekkjavöku. Svo kaþólikkar eru voða mikið í Allramessum þessa dagana. Annars væri gaman að gefa út allsherjardagatal. Þar sem merktir væru allar messur, frídagar og helgidagar allra trúarbragða, tunglið, merkilegir dagar í vestrænni og kínverskri stjörnuspeki, allir dagar sem eru tileinkaði einhverju... og gá svo hvort einhver dagur er eftir. Kannski jafnvel að lýsa hann friðhelgan. Venjulegi dagurinn. Bannað að tileinka hann neinu eða einu sinni eiga afmæli á honum!

Ég þarf að lesa Postdramatic Theatre eftir Lehmann. Svo þarf ég líka ógeðslega mikið að halda áfram að skrifa stóru ritgerðina mína. Klára allavega innganginn fyrir áramót. En það er bara þoka í hausnum á mér þessa dagana. Og óstjórnleg leti. Og krónísk syfja. Eiginlega bara næstum eins og það sé ennþá október.

Best að lesa.
Lehmann, you and me, baby!

Engin ummæli: