17.9.10

Í nafni andagiftar

Í dag kveður við örlítið annan tón. Nú blasir við lúxusverkefnið leikritun.
Hvers vegna lúxus?

a) Engin heimildavinna.
b) Það er gaman.
c) Engin heimildavinna.

Svo er líka fyrsta uppkast komið. Meira að segja fyrir löngu. Svo það sem eftir stendur er að hreinsa burtu bernskubrek, asnalegar setningar, allt sem er ekki lengur fyndið, allt sem hefur aldrei verið fyndið, og reyna svo að bæta við skotheldu fyndi.
Nei, ég er ekki að skrifa áramótaskaupið, en leikrit verður samt bara fyndið og ekkert nema fyndið. Ekki broddur í nokkrum sköpuðum hlut og þvísíður pólitík.

Enginn veit enn hvað það heitir og það verður frumsýnt hjá Hugleiknum einhverntíma í janúar.

Í tilefni þessa verkefnis verður viðhöfð frekar óþekk hegðan um helgina. Til að byrja með er ég enn heima hjá mér og ætla að vera hér fram yfir Óskastund Gerðar G. Bjarklind. Mér til andagiftar og í tilefni þess að ég á ekki erfitt með að halda mér að þessu verki.

Það getur verið að ég haldi áfram að skrifa í skólanum á eftir, undir fyrirlestri og umræðum um Artaud. Mér væri alveg trúandi til þess. Í kvöld ætla ég svo á Ljótu Hálfvitatónleika, til að hressa uppá fyndið, og vonast síðan til að það endist allavega jafnlengi og þynnkan.

Allt fyrir Andann, off kors.
Best að gá hvað gerist á fyrsta kaffibolla!

Engin ummæli: