Frumsýningardagar eru alltaf furðulegir. Maður er ekkert í sambandi. Sérstaklega ekki við raunveruleikann. Flesta frumsýningardaga sem ég hef lifað (sem eru að verða nokkuð margir) hef ég verið með einhver undarleg plön um að leggja mig.
Þetta gerist aldrei.
Ef svo ólíklega vill til að maður finnur sér tíma til að verða láréttur einhverja stund kemur manni hreint ekki blundur á brá. Og svo hringir síminn. Og svo þarf maður að fara í ríkið. Og svo dettur manni í hug að fara frekar niður í leikhús og skúra einu sinni enn, áður en maður fer að punta sig. Sem maður byrjar síðan á allt of snemma. (Nema maður sé að leika... en ég man ekki lengur hvernig það er.)
En, sem sagt.
Helgi dauðans er frumsýnt í kvöld.
For better or worse.
Generalprufugestir sögðu einum rómi: Þetta var nú bara gott! (Og gætti nokkurrar furðu í rómnum.) Ég hefi ákveðið að taka viljann fyrir verkið. Þetta er sumsé fram úr björtustu vonum generalprufugesta en ekki skal ég segja um hvar þær vonir hófust.
Það þarf samt eitthvað lítið til að pirra mig í dag. Er þó búin að koma litlu börnunum í íþrótta- og dansskóla, óbrenglað, í morgun.
En svona er frumsýningardagslíðanin: Haugsyfja, úld dauðans, grunnt á pirrinu. Mér finnst afar líklegt að þetta leikrit sökki feitt (algjörlega á mína ábyrgð) en veit líka alveg að þegar komið verður að hinni stórkostulegu kombinasjón freyðivín og pizzu, að sýningu lokinni, verður allt annað uppi á teningnum.
Það er alveg sama hvað frumsýningar-rússíbaninn er oft tekinn. Aldrei er maður viðbúinn.
Líklega ætti maður einhverntíma að hafa vit á að eyða þessum degi í ærlegt dekur-spa. Örugglega eina vitið.
22.1.11
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég ætlaði að fara að athuga með að kaupa miða í gær og var náttúrulega alltof sein. Var soldið svekkt yfir að það skyldi vera uppselt en samt líka glöð fyrir þína hönd :) Góða skemmtun í kvöld, ég hlakka til að koma og sjá.
Þetta er svo lítill salur að á frumsýningu er eiginlega bara uppselt af stjórn leikfélagsins og silkihúfum.
Svo það var uppselt á frumsýningu um leið og það var auglýst.
En ég verð þarna að sniglast á hinum sýningunum líka, flestum!
Skrifa ummæli