Nú hefur nokkið lengi staðið til að við skreppum til Kanada með allt liðið. Stefnan var upphaflega sett á 2012, en þar sem það kostar milljón (í alvöru, ekki næstum neitt) að vera með Hraðbátinn í dagvistun fyrri veturinn sem við yrðum þar var áætluðum vistaskiptum frestað til 2013. Alltíkei.
Upphaflega stefndum við reyndar á Manitoba en allir sögðu að þar væri geðbilaðslega kalt. Þá var nú eiginlega farið að miða á Toronto en Rannsóknarskip var nú samt alltaf að fá ábendingar á University of British Columbia í Vancouver. Mér fannst það nú eiginlega allt of langt í burtu, en loksins þegar ég dratthalaðist inn á heimasíðuna þeirra sá ég að þarna var líklega fjölskylduvænsti og flottasti skóli í heimi. Svo stefnan hefur verið þangað síðan.
Nema hvað nú fyrir skemmstu fer Rannsóknarskip allt í einu að tala um að hann sé of langt í burtu! Eftir að vera búinn að selja mér hugmyndina og hvurveithvað.
Reyndar er nú sennilega gáfulegt að láta hann sækja um í fleiri en einn skóla, og láta síðan auðnu ráða. Hins vegar er frekar flókið hvað ég er með mikla fordóma gagnvart ýmsum löndum.
Skilyrði er að landið sé enskumælandi. (Helsta takmarkið er jú þrautþjálfun enskukennarans í því tungumáli og bókmenntum einhvers hinna ensku málsvæða.
En ég fer ekki með börn til Bretlandseyja. Það eru alltaf allir fullir þar. Ég er líka haldin fordómum gegn Bandaríkjunum. Alltaf allir dópaðir þar, auk þess sem Bandaríska hrunið gæti alveg verið á leiðinni. Í báðum þessum löndum sökkar líka almenna skólakerfið alvarlega og einkaskólar eru fokdýrir. (Ókei, ekki á Írlandi. En þar eru allir kaþólskir og ennþá fyllri en annarsstaðar. Svo það er samt úti.)
Kanada er enn inni í myndinni. Og auðvitað eru fleiri skólar þar úti um allt. Miðjan á því er samt kannski soldið úti, vegna kulda. En Prince Edwards Island kemur auðvitað alveg til greina. (Hver vill ekki eyða tveimur árum á slóðum Önnu í Grænuhlíð? Alveg örugglega aldrei neinn fullur þar...)
Svo skoðaði ég Nýja Sjáland. Það held ég sé nú algjör paradís... en var ekki upphaflegt markmið endurskoðunar að fara skemmra í burtu? Hmmm...
Svo getur vel verið að til séu skólar um öll þessi lönd sem eru gargandi fjölskylduparadísir með geðbiluðum enskra bókmennta og leikhúsrannsóknadeildum sem ég er alveg að missa af. En vill til að ég er að fara til Japan að hitta leikhúsnörrasamfélagið í sumar og er t.a.m. að fara í 13 tíma flug frá Istanbul með kunningja mínum sem er búinn að læra í Bandaríkjunum og Írlandi og stendur í ströngu við að sækja um post-doc stöður í öllum hinum enskumælandi heimi og getur sjálfsagt mælt með einhverju og sigað mér á aðra leikhúsnörra til að spyrja um allan fjandann.
Enda... það eru víst ennþá tvö ár til stefnu.
Best að tékka samt aðeins á háskólanum hennar Önnu í Grænuhlíð, áður en maður hypjar sig á Bandalagið.
Smá viðbót: Fann nú hreinlega lúxusútgáfuna af Grænuhlíð, til leigu fyrir slikk. Spurning um að drífa sig bara NÚNA!
27.1.11
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Nýja Sjáland, ekki spurning. Þar er víst gott að búa - fyrir utan smávegis karlrembu, en jafnvel hún ku víst vera prúðmannleg á þægilegri nótunum. Ég kem í heimsókn!
Það er ekkert allt of kalt í Manitóbu - fór ekki nema í -38 veturinn sem ég var þar og það stóð mjög stutt, og sumrin eru hlý! Mæli eindregið með Man!
Skrifa ummæli