Annasöm helgi að baki.
Það er helst í fréttum að nú erum við bara að flytja til Kópavox eftir hálfan mánuð!
Skoðuðum íbúðina hans Ella frænda. Hún er STÓR! Allt sófasettið kæmist inn í stofuna í einu, líklega verður hægt að fara báðumegin fram úr hjónarúminu, hárblásarinn kemst fyrir inni hjá unglingnum og allskonar lúxus sem við erum ekki vön. Já, og allir skór veraldar komast fyrir í forstofunni. (Fjölskyldan sem hefur ekki haft forstofu í 5 ár sér nú frammá að detta jafnvel bara ekki um neitt þegar komið er inn úr dyrunum!
Elli frændi verður fjölskyldudýrðlingurinn.
(Allavega þangað til íbúðin selst og hann hendir okkur út. En, er á meðan er.)
Aðrir en ég í fjölskyldunni eru nú samt svolítið tvíbentir yfir breytingum. Þetta eru óttalegar breytingafælur. Ný tegund af klósettpappír getur alveg valdið andvökum. En ég læt það ekki á mig fá. Mér finnst skemmtilegt að breyta. Allavega svona rækilega til batnaðar. Hlakka óstjórnlega til vorsins í nágrenni allra útivistardásemda Fossvogsdals og hef fulla trú á að allir lifi hamingjusamir til æviloka. Hvorki meira né minna.
Svo fór ég á tvenna tónleika með Band on Stage um helgina. Gaman var það. Á daginn var ég síðan dáldið mikið einstæð móðir þar sem Smábátur og Rannsóknarskip eru nú á lokasprettinum í æfingum á söngleiknum Hairspray sem hún Sigga Birna er að setja upp með Hagaskólaliðinu. Það er því hætt við að við sjáum þá feðga ekki mikið fyrr en bara við flutninga.
En það er kominn tími til að viða að sér kössum og setja ofan í þá. Já, og henda dáldið rækilega. Mig langar að fara aðeins í gegnum gleymsluna áður en brestur á með flutningum.
Sölufundurinn af okkar íbúð er á föstudaginn og þá fáum við væntanlega á hreint hvað nýir eigendur vilja að við verðum snögg að drífa okkur út.
Innanum kassa-niður-í-pökkun næstu helgar verður haldið Hugvísindaþing í HÍ. Hvar ég ætla að segja hluti í málstofu um leikhús. Hvurt ég þarf að ákveða, hanna og skrifa í þessari viku. Orðin brjálæðislega langt á eftir áætlun á þessari önn. Þarf virkilega að hífa rannsóknina upp á raðskatinu í apríl. Sem er grimmastur mánaða.
Grrrrr.
21.3.11
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Heyrðu það var eitt sniðugt við íbúðina sem ég var búin að gleyma, hún er í næstu götu við pabba og mömmu, þau eru hinum megin við 10-11 :)
Enn fremur, er apríl grimmastur af því þá eiga grimmar snjókindur afmæli?
Hahaha! Já!
Alveg var ég búin að gleyma grimmu snjókindunum!
Og mamma þín var einmitt búinn að mæla með allskonar útivistarsvæðum í grenndinni. Sem ég hlakka til að þvælast um!
Skrifa ummæli