Vinur minn sem ég umgekkst mikið á árum áður hafði afar leiðinlegan, og dónalegan, ávana. Ef hann hafði ekki áhuga á umræðuefninu þá átti hann til að segja: „Jájá. Getum við talað um eitthvað annað?“ Þetta varð alltaf hálfgerður samtalsstoppari. Afar dónalegt gagnvart þeim sem höfðu sýnt á ófyrirsynju að leyfa umræðum að fara í einhverja þá átt sem téðum vini mínum var ekki að skapi. En aldrei minnist ég þess að við höfum sett ofan í hann vegna þessa.
Eftir á að hyggja sagði þessi maður aldrei neitt þessu líkt nema í hópi kvenna. Ég minnist þess aldrei að hafa heyrt hann setja svona ofan í við neinn af karlkyns vinum okkar. Og kannski er stærsta spurningin hvers vegna við þoldum þetta. Hvers vegna við bentum honum aldrei á að þetta væri ókurteisi.
Og það var ekki eins og þessi maður talaði alltaf og ævinlega eingöngu um hluti sem ég hefði áhuga á. Óneinei. En maður hlustar samt. Það er bara kurteisi. Ef manni leiðist ógurlega ef yfirleitt lítið mál að leiða talið að öðru, án þess að vera dónalegur.
Mér datt þetta í hug áðan þegar ég var eitthvað að tjá mig á fésbók vinkonu minnar, þvældist reyndar aðeins frá umræðuefninu, og annar fésbókarvinur minn þótti maklegt og réttvíst að benda mér á að ég væri komin í „húsmóðurgírinn.“ Ó! MÆ! GOD! Hvílík hneisa!
„Nei, nú ertu farin að tala um pólitík.“ Fær maður það einhverntíma? Nei. Maður virðist aðeins vera á villgötum í umræðunni þá og því aðeins að umræðan snúist um eitthvað sem almennt hefur á sér kvenna-stimpilinn.
Gífurmargir fésbókarvinir mínir karlkyns tjá sig af miklum móð um börnin sín og heimilishaldið. Sumir reyndar um fátt annað. Við eigin statusa og annarra innlegg. Ég held að það sé rétt hjá mér að ENGUM manni myndi nokkurn tíma detta í hug að benda þeim á villu síns vegar, og bregða þeim um að vera komnir í „húsmóðurgírinn.“
Það er svo merkilegt að þó jafnrétti sé að mörgu leyti næstum náð er eins og að í almennu samtali virðist mörgum minni þörf á að sýna konum þá kurteisi og virðingu sem þeir sýna karlmönnum, alveg umhugsunarlaust.
Vér konur berum líka alveg okkar ábyrgð í þessu máli. Ef við hefðum einhvern tíma rætt þetta við vin okkar, í gamla daga, er ég nokkuð viss um að það hefði ekki þurft að gera það nema einu sinni. Þar sem við gerðum það ekki er ekkert víst að hann sé enn búinn að átta sig á þessu. Kannski ekkert endilega stórt skref fyrir mannkynið, eða neitt, en það flísast alveg slatti útúr sjálfsálitinu ef maður fær, svona jafnt og þétt yfir ævina, alltaf nokkrum míkrógrömmum minni virðingu af þeirri ástæðu að maður var svo óforsjáll að fæðast með píku en ekki typpi.
Femínismi: Sú byltingarkennda hugmynd að konur séu fólk...
7.6.11
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Það eru einmitt þessar litlu "flísar" sem erfiðast er að vekja athygli á þegar þær stingast í mann því þær sjást stundum illa þó það finnist vel fyrir þeim. Því miður er kona of oft afgreidd með hnussi um að voðaleg smámunasemi sé þetta - allt að því noja. Eða hvað kona sé óttalega viðkvæm, ekkert megi nú segja lengur. Grrrr......
Já, og svo er stundum erfit að festa hendur á því hvað málið er, fyrr en eftir mjög langa umhugsun. Vegna þess að þetta er svo algjörlega venjulegt og samfélagslega samþykkt. Efni þessa pistils er til að mynda alveg um 20 ára gamalt. Það er stutt síðan ég áttaði mig á því að þetta var aldrei í lagi.
Ég held að þetta sé alla jafna hugsunarleysi frekar en einbeittur brotavilji og að þessu sé tiltölulega auðvelt að breyta.
Svo eru auðvitað hinir sem halda að karlrembustælar séu fyndnir og skemmtilegir. Þeir þurfa náttúrulega bara naglaspýtu í andlitið.
Demmit - hvar er læk takkinn?
Blogger segir a.m.k brillign.
Skrifa ummæli