15.9.11

Bðeee

Ferlega erfitt að hunska sér að verki þessa dagana. Ég kenni um myndinni sem ég horfði á í gær (The Shock Doctrine) og byltingarkastinu sem ég er í, í framhaldi af heimsókn Chomskys, Vandana Shiva og fleiri snillinga. Mig langar alls ekki neitt að vera að reyna að skrifa einhverja "gáfulega" fyrirlestra, heldur bara að hreiðra um mig og lesa Empire eftir Hardt og Negri, horfa aftur á allar Zeitgeist myndirnar og
óverlóda af TED-fyrirlestrum. Pikka upp vögguljóð róttækrar móður, skrifa í Risastóru Bókina um Allt (sem er ekki enn í smíðum) skrifa geðbiluð ádeiluleikrit og gera síðan byltinguna. Bara sisvona.

Við eyðum miklum tíma í að forðast að upplifa hann. Tímann, semsagt, bara svona á þeim tíma sem hann líður. Mér finnst ég alltaf vera að reyna að láta hann líða hraðar... eða hægar. Held ég þurfi að halda áfram að vinna í að komast til Montpellier með allt liðið í júní. Suður-Frakkland var fyrir mér existensíalísk upplifun þar sem ég lærði listina að gera ekkert og láta sig berast með straumnum. (Enda segir kínverska stjörnuspekin að það vanti vatn í persónluleikann minn. Ég held það geti vel verið. Ekkert nema eldur og eldiviður, hérna inni.)

Nú eru orðin 10 ár síðan ég var að berjast við að læra að ganga á frönsku (í staðinn fyrir að vera alltaf æðandi fram úr öllum og þurfa tvær sturtur á dag út af flýtisvita) og verða ekki geðbiluð í óralöngum biðröðum (einfalt, maður tekur með sér bók) og ég er að verða búin að gleyma þessu aftur. Allt þarf ævinlega að gerast NÚNA. Enda er ég búin að vera þreytt og stressuð frá því að ég man eftir mér. Samt alltaf eitthvað skemmtilegt og spennandi að gerast, sko. En þreyttur og stressaður nýtur maður alls ekki neins.

Og nú þarf ég að hringja á leikskólasvið Kópavogsbæjar.
Best að njóta þess alveg í tætlur...

Engin ummæli: