14.9.11

Frestun á fresti...

Stjörnuspá - 14. september 2011
fyrir 4. apríl 1974

Andrúmsloftið er frekar dempað og tilfinningar þínar kaldar. Samskipti geta því verið frekar stíf og kallað á vinnu. Það er best að halda sig til hlés og vinna í friði, frekar en að fara út á lífið, eyða peningum eða fást við viðskipti. Þetta er dagur raunsæis og varkárni. (Venus 90 gráður Satúrnus) 



Þetta væri nú alveg í ljómandi lagi ef maður nennti einhverju. Fráfarandi flensa á líklega sinn þátt í því. Og svo var ég líka búin að harðákveða að skrifa upp eitt viðtal en komst svo að því að ég var með diktafóninn en ekki heddfón sem passar í hann og ekki heldur snúru sem passar til að færa dótið yfir á tölvuna (sem ég ætti líka löngu að vera búin að gera. Ekkert sniðugt að geyma einhver 10 viðtöl bara á oggulitlum diktafóni sem getur týnst, dottið í gólfið, verið stolið eða orðið fyrir kaffislysi hvenær sem er.


En, setningin sem ég hangi á þegar kvíðaröskunin ætlar allt lifandi að drepa: There is more to life than being on top of things!


Svo nú get ég ekki gert það sem ég var búin að ákveða. En ég get haldið áfram að vinna í þrennu. Fræðilegi inngangurinn að ritgerðinni minni er í þróun. Ég á eftir að fara betur í orðræðugreininguna og yrðingarammana sem ég er að búa til, svo er ég með góðan bunka af bókum sem ég þarf að glugga í, vitna í og lesa í. Brýnna og meira aðkallandi er þó að reyna að klára framsöguna sem ég ætla að flytja á málþingi um "stöðu leikskáldsins" á vegum leikritunarhátíðarinnar Grósku í Norræna húsinu á laugardaginn. Já, og klára fyrirlesturinn sem ég er að fara að halda á einhverri alveg viðbjóðslega gáfulegri ráðstefnu í London eftir rúma viku.


Já, þetta er allt jafnsvalt og það hljómar, ef ekki svalara. Og í byrjun vikunnar vann ég heilmikið í báðum þessum "ræðum". Og var meira að segja nokkuð ánægð með mig. En nú þori ég ekki fyrir mitt litla líf að opna þau aftur eða lesa þau. Vegna þess að þau gætu sökkað. Eða kannski sökka þau og ég sé það ekki. Eða... eða... Bðeeerrrgh. Þetta er ástæðan fyrir því að maður frestar helst því sem maður ætti alls ekki að fresta. Og svona er þerapían mín, þegar ég er alveg að gera sjálfa mig vítlausa: Skoða stjörnuspána (sem segir venjulegast eitthvað ömurlegt) skoða tarotspá dagsins (sem boðar venjulega hamfarir, skilnað, dauðsfall og þvíumlíkt) skoða síðan Zen-tarot spil dagsins (sem gefur manni ævinlega eitthvað einstaklega gott heilræði sem maður fer síðan ekki eftir) og skrifa síðan eitthvað út úr rassgatinu á mér hérna. Það er svo skrítið að það er allt í lagi þó það sé ekkert „merkilegt.“ Bara fréttir af barnahori, pirringur yfir einhverju eða upptalning á því sem er fyrirliggjandi... þegar ég er búin að senda eitthvað ekki-neitt-neitt út í heiminn er auðveldara að opna frestunarskjölin og reyna að gera eitthvað.


Já, og áður en maður gerir það er mjög góð regla að drepa á internetinu. Bara með því að slökkva á vafranum (þetta er asnalegt orð. Af hverju ekki vafraranum?) tekst mér stundum að láta Fésbókina í friði alveg fram yfir hádegi, jafnvel.


Ókei. Einntveirog...

Engin ummæli: