25.12.11

Jólin

Jæja. Til skemmtunar fyrir ömmur og börnur kemur hér frásögnin af jólaundirbúningi, aðfangadegi og jóladegi í fínustu smáatriðum. Þeir sem ekki hafa gaman af langdregnum og díteiluðum frásögnum af börnum, heimili og öðrum hátíðarnormalheitum geta hætt að lesa núna.

Fyrstu helgi í aðventu var Rannsóknarskip norðan heiða, Móðurskip í stofufangelsi með afkomendurna og því voru aðventukassar uppgrafnir og jólað ógurlega. Þar sem við erum í áður ójóluðu húsi, og miklu stærra en síðast, kom ýmislegt á óvart. Nú eru til dæmis gluggasyllur úti um allt, talsvert fleiri gluggar en áður. Og svo voru báðar seríurnar ónýtar. Þetta leiddi til ferðar í Rúmfatalager og Byko með hæper börn og nokkur taugaáföll. Aðventað var nú samt, vel og vandlega, miklu fyrr en venjulega.
Helgina eftir fór móðurskip austur í 5 daga húsmæðraorlof. Það var byrjað á súkkulaðidagatölum en það gleymdist að kveikja á tveimur kertum á aðventukransinum.


Unglingurinn Smábátur kvartaði yfir því að hafa týnt barnagleðinni yfir jólunum. Þau litlu eru hins vegar ekki endilega farin að muna hvernig síðustu jól voru, né byrjuð að missa matarlystina yfir pökkunum viku fyrir jól. Svo þetta er allt mjög rólegt.

Síðustu helgi fyrir jól var bakað laufabrauð og síðan jólatréð sett upp ásamt jólaskrautinu eins og það lagði sig. Þegar ég var lítil var allt dauðþrifið áður en mátti taka upp eina einustu jólaskraustutlu. Veggir skúraðir, innanúr og ofanaf öllum eldhússkápum, tekið til í herbergum, yst sem innst, og skreytt á þollák. Jólatréð á aðfangadag. Við höfum endaskipti á þessu. Skreytum fyrst og þrífum svo á þollák. Og dáldið á aðfangadag. Það þýðir ekkert fyrr. Og eldhússkápar eru nú bara alveg látnir eiga sig sem og aðrir skápar.

Í mínu ungdæmi var skreytingum á þollák og aðfangadag reyndar ætlað að stytta biðina eftir jólunum en það var nú áður en DVD spilarar komu til. Reyndar var Freigátu svo nóg boðið þegar þau voru að horfa á mynd 2 í beit, bara í sjónvarpinu, á aðfangadag að hún spurði hvort ekki væri óhollt að horfa svona mikið á sjónvarpið. Hún fékk þau svör að á jólunum mætti stundum gera sumt sem væri óhollt.


Börnin voru geymd á leikskólanum til og með þolláx af áður óþekktu harðfylgi. (Og fá að fara þangað aftur strax á þriðja í jólum.) Þau voru nú samt bara nokkuð ánægð með það. Á nýja leikskólanum er nefnilega brekka og ógrynni af þoturössum. Börnin eru búin að læra að renna sér. Á 22. var unglingurinn farinn norður yfir heiðar til að eyða jólunum með föður sínum og hans fjölskyldu. Hann kemur aftur 29., rétt stoppar yfir áramótin og svífur svo til Flórída með móðurfjölskyldunni sinni. Svo þetta voru óvenjufáliðuð jól.

Semsagt. Þrif voru framin á þollák og aðfangadag. Á aðfangadag vaknaði ég snemma með ormagormunum og framdi hátíðarsiðinn að brasa súkkulaðimús, með tilheyrandi þeytarahljóðum, börnunum til ama og leiðinda þar sem þau voru að reyna að heyra aðfangadagsbarnaefnið. Þau verða óstjórnlega fegin ef við fáum okkur einhverntíma eldhús með veggjum. Eftir maraþon sjónvarpsgláps (barnanna) og matargerðar (mitt) lagðist ég í árvisst símavændi og slúður við eina vinkonu mína á Egilsstöðum. Svo var sparistellið drifið fram og Rannsóknarskip eldaði dýrindis lambalaæri. Hugga syss mætti með rauðvínsflösku sem við dreyptum á á meðan við rifum kjaft yfir lokahönd á matargerð. Allt eins með hefðbundnu sniði. Börn tóku ótrúlega duglega til við matarinntöku. Svona miðað við að þau eru almennt tortryggin á sjaldgæfan mat og síðustu tvö ár hefur Hraðbátur nærst eingöngu á laufabrauði yfir hátíðarnar.


Síðan var tekist á við aðalatriðið, pakkaopnun. Það var einkar ánægjulegt. Úr milljón pökkum fengu allir fullorðnir eitthvað fallegt sem og bækur sem þeir höfðu ekki lesið. Börnin fengur, taldist mér 6 leikfangapakka, hvort, og ekki tókst að setja allt í notkun á aðfangadagskvöld. Slatta af bókum, náttföt, íþróttagalla, geisladiska, hljóðbækur, DVD-myndir. Ólíklegt að takist að eyðileggja alltsaman fyrir nýjárið, í þetta sinn! Þó vafalaust geri menn sitt besta. Rannsóknarskip fékk óvenjumikið af golfdóti og er harla glaður. Ég fékk ukulele. (!!!!) Og heilsukodda. Og fjórar bækur. Og pæjuveski. Og ótrúlega margt fleira fínt. Annars hefur tíðkast í minni fjölskyldu að skiptast á listum yfir hvað okkur langar í/vantar og síðan tekur við gríðarflókið upplýsingaferli þar sem allir nema sá sem gjöfin var keypt handa þarf að frétta af hverjum hlut sem keyptur er. En ég hef komist að því að það eru óvæntu gjafirnar sem eru skemmtilegastar. Svo við Hugga syss ákváðum að hætta þessu rugli nú bara. Á næsta ári fá allir bara eitthvað og eitthvað, sennilega frekar exótískt og skrítið. Rannsóknarskip er að fara til Rúmeníu, Frakklands og kannski Tyrklands á næsta ári og ég kannski til Chile. Þannig að klárlega geta menn ekki einu sinni látið sig dreyma um hvað þá langar í/vantar í jólagjafir frá Rúmeníu/Frakklandi/Chile, hvað þá í apríl/júní/júlí.

Allavega. Núna á jóladagskvöldi eftir jólaboð hjá Huggu, annað hjá afa og ömmu Smábátsins og leifar af aðfangadagskvöldi í kvöldmatinn, er búið að taka öll leikföng í notkun. Lesa fleiri bækur og ég er búin að læra þrjú grip á ukulele. Gat þess vegna spilað og sungið „Loksins ég fann þig“ fyrir Rannsóknarskip í gærkvöldi. Nú er Rannsóknarskip farinn að lesa jólabækur fyrir börnin fyrir svefninn og ég ætti vitaskuld að vera að gúggla restinni af ukulelegripunum. En í staðinn er ég að horfa á Holiday. Í þriðja sinn á þessu ári, held ég. En, eins og ég sagði Freigátunni í gær, má haga sér eins óskynsamlega og mann lystir á jólunum.

Og ef einhver heldur að aðdráttaraflið í þessari mynd tengist Jude Law, þá skulum við bara hafa það á hreinu að hann hefur EKKERT í Jack Black!

Gleðileg jól!

Engin ummæli: