Er að horfa að niðursuðu úr Kastljósum ársins. Sjitt hvað mikið hefur verið þrasað. Blóðþrýstingurinn stefnir úr engu og yfir hættumörk. Á nýju ári ætla ég að hætta að „fylgjast með.“ Af heilsufarsástæðum. Ætla núna snöggvast að hefja ritun fréttayfirlits af innanheimilsvígstöðvum árið 2011.
Áramótunum var fagnað á Akureyrinni. Fljótlega uppúr þeim haldið aftur í bæinn. Ég byrjaði í einhverri geðbilun, Helgi dauðans var frumsýnd einhverntíma í lok janúar. Fljótlega urðu yngri börnin síðan 5 og 3 ára. Um leið og ég kom heim úr leikhúsinu hurfu Rannsóknarskip og Smábátur á sambærilegar vígstöðvar, annarsstaðar, fóru að æfa söngleikinn Hárlakk í Hagaskóla. Við hjónin brugðum okkur nú samt í orlofsferð til Edinborgar einhverntíma í febrúar. Áður hafði ég ákveðið að íbúðin okkar væri orðin of lítil (líklega vegna þess að ég var alltaf ein heima að taka til) svo Ránargötuskonsan var sett á sölu. Eitthvað hafa nú fasteignasalar misst móðinn við hrunið, sá sem talaði við okkur taldi allavega öll tormerki á því að okkur tækist að selja okkur uppúr skuldunum og var hinn fúlasti. Íbúðin fór á netið á meðan við vorum í Edínarborg, fyrsta símtalið kom á meðan við vorum enn á flugvellinum í Glaðskógum. Við tók tveggja sólarhringa stanslaus straumur fólks og við vorum búin að selja á fimmtudegi. Afhending hálfum mánuði seinna, staðgreitt uppúr skuldunum og gott betur, og möguleiki á að leigja fram á sumar ef okkur sýndist svo. Til þess kom þó ekki, í kringum fyrsta apríl (og daginn eftir frumsýningu Hárlakks, eða svo) fluttum við í Kópavog, á indæla sérhæð með haug af plássi, í eigu Ella frænda míns sem vantaði leigjendur. Hér fer nú aldeilis ljómandi vel um okkur, sko. Það er gott að búa í Kópavogi, og allt.
Börnin þurftu reyndar að skipta um leikskóla eftir sumarfrí en það rann nokkuð ljúflega niður, þó Freigátan tali stundum um ýmsa af gamla leikskólanum. Enda erum við alltaf á leiðinni þangað í heimsókn. Smábátur fær að klára Hagaskólann og er bara orðinn sérfræðingur í strætóleiðinni Kópavogur-Vesturbær Reykjavíkur. Hann var reyndar píndur í unglingavinnuna í Kópavogi hluta úr sumri, með afskaplega dræmum undirtektum, en seinni hluta sumars var hann í sveitavinnu í Eyjafirði og þótti fínasta slag.
Í sumar var síðan bætt við stórfjölskylduna. Sigurvin bróðir minn og Auður Ásbjörnsdóttir eignuðust dótturina Ásthildi Viktoríu þann 30. júnó og hefur hún náttúrulega verið í ógurlegu uppáhaldi hér á bæ og er næstum drekkt af ástúð og umhyggju þegar hún kemur í heimsókn.
Við vorum slatta fyrir eystan. Þar var í gangi unglingalandsmót. Því fylgja hoppukastalar. Þvílíkt og annað eins gríðarstuð! Ég skildi síðan liðið eftir og fór til Japan. Á ráðstefnu í Osaka. Flugið var dauðinn, ráðstefnan var skemmtilg. Ég var í viku að jafna mig eftir heimkomu.
Fór á aðra ráðstefnu í september og tók eiginmanninn með mér. Hún var í London. Einnig gaman. Og svo fórum við í slatta af leikhúsi og svona. Hreint ágætt og ljómandi.
Síðan erum við nú bara búin að vera heima og haga okkur. Mest. Reyndar er ég aftur komin á milljón í Hugleikinn. Skrifa og aðstoðarleisktýri einhverju sem verður frumsýnt í byrjun febrúar ef alheimurinn lofar. Svo það stefni í sömu geðveikina eftir jól eins og eftir þau síðustu!
Og Smábáturinn fékk spangir á tennurnar sínar, kortér í jól. Var fyrir norðan hjá föðurfólkinu sínu um jólin og fer með móðurfólkinu sínu til Flórída strax eftir áramót. Og ég fékk úkúlele í jólagjöf. Og er alveg óþolandi dugleg að æfa mig... finnst öllum hinum á heimilinu.
Áramótapartíið verður þokkalega undirlagt!
Og upp er runninn þriðji veturinn í doktorsnámi. Ber helst til tíðinda að ég held ég sjái fyrir endann. Það er að segja, líklega er ég hálfnuð. Tveir vetur eftir þennann ættu að duga. Tala nú ekki um ef mér tekst að láta leikhúsið nokkurn veginn í friði á meðan.
Í ár tókum við upp á þeirri nýbreytni að vera heima hjá okkur um áramótin. Enda erum við búin að vera svo löt að það liggur við andlátum. Þau yngri hafa eitthvað verið í leikskólanum. Kannski á morgun (30.) Fer eftir veðri. Það er spáð snjókomu, en talsvert hefur verið um svoleiðis og þurfti að moka bílinn rækilega út í dag. Hugga syss og ein vinkona hennar verða hjá okkur í gamlárspartíi og það verður nú stuð.
Næsta ár ætti síðan að hefjast með ógrynni af leti. Ekki með ferðalagi eins og venjulega. Heldur bara yfirgengilegu tjilli. Í einn dag. Síðan þarf að drífa Smábát til útlanda og æfingar hefjast á MILLJÓN!
2 ummæli:
Og ekki orð um Færeyjar???
Hulda
Hahaha! Alveg vissi ég að ég væri að gleyma einhverju.
Þær voru bara svo stuttar, og gjörsamlega "you had to be there." ;)
Skrifa ummæli