24.4.12

Fokkíng iðjusemi!

Fjandinn. Nenni ekkert að gera í vinnunni og tarrotta á internetinu, mér til skemmtunar. Og hvað kemur ekki í ljós? Tvær framtíðir í boði, báðar frekar ömurlegar en önnur þó illskárri, og hvað sker úr um hvor verður? Iðjusemi!!! Það stendur reyndar ekkert um hvort iðjusemi eða ekki leiðir til skárri útkomu þannig að ég er nú að hugsa um að hlusta bara á aðeins fleiri TED fyrirlestra og Gabor Maté þó það komi fyrirlestrinum sem ég á að vera að skrifa ekki BEINT við. En, hei, er ekki alveg rökrétt að til að skrifa góðan fyrirlestur undirbúi maður sig með því horfa á nokkra þannig?

Annars er það helst að rapportera að það gengur alveg sæmilega að éta ekki yfir mig við hvert tækifæri. Einnig er líkamsrækt stunduð af kappi, að kenna litlum skræfum að hjóla í brekkum útheimtir talsvert af bogri, ýtingum, lyftingum og allskyns. En hjólfærni ungmennanna fer þó stórbatnanadi með hverjum degi sem við nennum út. Svo er að koma að Háskólahlaupi! Fyrir 15. maí ætla ég að vera búin að æfa mig heilmikið. Ætla helst að hlaupa alveg 7 km. Annars gengur allt svona upp og ofan með markmiðin. Ungviðið fær að hanga heilmikið í tölvunni. Unglingurinn fær að gera næstum allt sem hann vill. Móðurskip er samt nú þegar að verða ansi slæm á taugum. Og ekkert hefur verið þrifið að ráði, en það er nú líka spáð rigningu seinnipart vikunnar.

Þarf að skreppa yfir í næstu byggingu og sækja haug af heimaprófum til yfirferðar. Það er ekki einu sinni fyndið hvað ég nenni því ekki. Eins gott að muna fögur fyrirheit um að kenna aldrei neinum neitt framar. En þegar þessi heimaprófahaugur verður frá verður ekkert eftir nema lokaprófin.

En þessi vetur var langur og strangur. Ég finn verulega fyrir eftirköstum hans. Er jafnvel farin að velta fyrir mér hvaða haugageðbilun hafi staðið að því að ég ákvað að hefja doktorsnám með eins, þriggja og þrettán ára börn á heimilinu... og hafa ekki einu sinni vit á að hætta í leikfélaginu á meðan? Eitthvað segir mér að seinna meir muni ég horfa forviða í baksýnisspegilinn og spá í hvernig ég lifði þetta nú af. En það er náttúrulega mjög gaman að gá hvað maður getur þanið sig.

Og talandi um það. Landsdómsmálið, umræður um ríkisstjórnarfundi eða ekki, og allt mögulegt er að hafa hin undarlegustu áhrif á mig. Ég er smám saman farin að hafa áhuga á stjórnun. Fram til þessa hefur mín kvíðaröskun gert það að verkum að ég verð að halda mig frá slíku eins mikið og ég mögulega get, en það er einfaldlega þetta að það virðast vera til mismunandi aðferðir.

Og ég skal ekki ljúga. Auðvitað væri dásamlegt að vera á þannig launum að maður gæti stöku sinnum verið óvinnandi heima hjá sér. Þyrfti ekki að vera með hjartað hálfpartinn í buxunum um hvort endar nái saman, vogi maður sér nú að ætla að taka þátt í akademískri umræðu ellegar menningarstarfsemi á fjölþjóðlegum vettvangi... Já, næs djobb með skrisstofu. Mögulega ekki það versta sem fyrir gæti komið.

Allavega. Eftir doktorspróf er ég að spá í að athuga hvað felst í "stjórnun." Ég væri fínn stjóri, ef ég hefði stjórn á stressi og geðbólgum. En þetta er nú ekki alveg á næstunni. Ja, nema ég fái ekki styrk til frekara doktorsnáms í bili. Þá ætla ég að gera einhvern fjandann annan. (Og hlakka reyndar pínu til. Ég er atvinnuleitarperri. Fer næstum jafn oft á atvinnuauglýsingavefi eins og fasteigna.)

Best að fara út og þenja sig 3 kílómetra. Takmark mitt í sumar er að geta hlaupið jafnlengi og það tekur að hlusta á Allt er ekkert með Jónasi og ritvélunum. Mér er alveg sama hvað ég hleyp langt, aðalmálið er að hlaupa allan tímann, stoppa aldrei og labba aldrei.

Kapísj?

Engin ummæli: