21.12.03

Hvað er það við jólin
sem fær allar konur til að ryksuga?


Segir í flunkunýju jólalagi sem mér finnst sniðugt. Mér þætti gaman að vita hver það var sem ákvað að flestar kellingar verði alveg snar eftir miðjan desember? Faðir minn hefur ævinlega passað sig að halda sig utan heimilis, eða allavega í útihúsunum, sem mest á þessum tíma. Núna er ég líka búin að búa mér til leiksvæði í bílskúrnum og Bára komin með lykla að Tónskólanum. Við erum sem sagt viðbúin því að flýja að heiman þegar hinn hávaða- og stressbelgurinn mætir á heimilið á morgun. (Altso, systir mín hin eldri.)
Það er samt svo skrítið að mamma mín er alltaf bara stressuð þangað til Hugrún mætir á svæðið með sinn 140 yfir 98 blóðþrýsting og fer að hafa hátt. Eftir að það hefur gerst verður mamma alveg pollróleg.
Kannski er þetta bara eitthvað eðlisfræðilögmál sem gildir bara í desember. Þá þarf einn aðili á hverju heimili að vera yfir þrýstimörkum.
Hmmm?

Persónulega líð ég annars líkamlegar og andlegar kvalir fyrir þrif á heimilum. Sérstaklega svona skipulögð, sem þurfa að gerast á ákveðnum tíma. Mér getur hins vegar alveg dottið í hug að þrífa ísskápinn í febrúar, forstofuna í júlí og taka fataskápana í gegn um miðja nótt á miðvikudegi í október.
Ef fólk eða náttúruöflin ætla hins vegar að fara að segja mér að ég "þurfi" að gera svona hluti á einhverjum ákveðnum tíma þá fæ ég kvíðakast. Það slær út um mig köldum angistarsvita og mig langar að vera að gera hvað sem er annað. Þetta er einhvers konar mótþrói.

Og í honum er ég einmitt núna, sit og blogga þegar ég ætti að vera að taka til í herberginu mínu. Grrrrr....

Engin ummæli: