9.1.04

Ég á við vandamál að stríða.
Trúlega er það einhvers konar -ismi, ég veit það ekki, en hann lýsir sér t.d. í því að nú er ég búin að búa hér í nákvæmilega viku og hef enn ekki þurft að "gera" neitt nema að vinna. Þ.e.a.s., hef aldrei þurft að mæta neinsstaðar á neinn fund eða neitt. Hugleikur setti mig ekki í neitt hlutberk og ég er ekki í neinni stjórn á neinu (sem er reyndar æði).

Það er samt bara einhvern veginn þannig að þegar ég þarf ekki að gera neitt þá er mér lífsins ómögulegt að njóta þess að hanga. Lífið fyllist bara tilgangsleysi og nenni ekki einu sinni að gera það sem ég á að vera að gera.

Eftir viku af aðgerðaskorti eru alvarlegar geðtruflanir farnar að gera vart við sig. Aðgerða er þörf allavega 2 kvöld í viku sem hafa einhvern tilgang. Ekki væri verra að þær fælu í sér einhverja líkamsþjálfun til að vinna á móti afleiðingum nýafstaðins jólaáts.

Þegar á annað borð er byrjað er ég líkleg til að fara vestur úr því. Eftir smá stund verð ég sjálfsagt komin í kripalújóga á morgnana, námskeið í einhverju á kvöldin og 2-4 leikfélög (og fíla það í botn).

Á svona tímamótum eins og nú standa yfir þarf ég samt að vanda valið. Núna er ég komin í alvarlegan kaldan kalkún og þá er mest hættan á að ég gleymi mér og taki að mér eitthvað sem ég var búin að gleyma að mér þykir leiðinlegt.

Veit ekki hvað þessi -ismi heitir eða hvort eitthvað er við honum að gera. Veit heldur ekki hvort hann er nokkuð svo óhollur, kemur allavega í veg fyrir að maður setjist niður og mygli fyrir framan sjónvarpið fram undir sjötugt.

Allavega, komin í fráhvörf núna og þarf mitt fix.
Stefni á námskeiðaskráningar í dag.
Íha.

Engin ummæli: