25.2.04

Þá er runninn upp ösku-r-dagur sá sem Spunkhildur mín nefnir á sínu bloggi tilbeiðslu djöfulsins. Klukkan 09.00 voru útsjónarsömustu börnin mætt niður á Laugaveg og byrjuð að betla. Heimur versnandi fer.

Ég man (reyndar ekki alveg) þá tíð þegar hefðir öskudags fólust aðallega í því að ungar stúlkur hengdu öskupoka á bök pilta þeirra sem þeim þóttu skverlegastir, og höfðu þá jafnvel skilaboð í. Mér skilst reyndar að sá siður hafi lagst af þegar hætt var að framleiða títuprjóna sem hægt var að beygja í hæfilega hengikróka. Það er erfitt, ef ekki ómögulegt að hengja eitthvað laumulega aftan á fólk með öryggisnælum.

Mér finnst allavega komið óþægilega mikið Hrekkjavökubragð af öskudeginum okkar og er mest að spá í að gera, í anda þess, skrifstofuna að draugalegum splatter-vettvangi (fullt af gerfiblóði, -greftri og -hori) og henda hverjum þeim krakkagemling sem hingað villist öfugum niður stigann.

Niðurtalning til frumsýningar æðir áfram, geðprýði hópsins alls minnkar með hverjum deginum og ég man ekki hvenær ég fór síðast í sturtu.

Engin ummæli: