24.2.04

Og, það er kominn sprengidagur!
Því miður ekkert saltkjötogbaunir í ár sökum búsetu minnar í Tjarnarbíó þessa dagana. Ég missti líka af bolludeginum, ekki ein einasta bolla. Enda er ég eitthvað slatta farin að missa stjórn á útlimum, gaf einni tölvu kaffibað í vinnunni í gær og byrjaði daginn í dag á því að hella upp á, ja, vatn. Gleymdi að setja kaffið.

En svona er þetta bara viku fyrir frumsýningu. Ég var einmitt að lofa heppni mína yfir því að nú ríkir skilningur á þessu ástandi á öllum vígstöðvum. Vinnan mín skilur mig fullkomnlega, heimili okkar Ástu verður bara að líta út eins og því sýninst þangað til við megum vera að því að taka til og meira að segja maðurinn minn skilur mig! Það er eiginlega ekki hægt að fara fram á mikið meira.

Dró Hugrúnu á leikritið Vegurinn Brennur í Þjóðleikhúsinu á föstudagskvöld. Er ekki enn búin að ákveða hvort ég nenni að tjá mig eitthvað um þá sýningu opinberlega. Fór með gífurlegar væntingar og varð þar af leiðandi fyrir einhverjum vonbrigðum, þetta var ekki hin fullkomna uppsetning á hinu fullkomna leikriti... En, það er nú kannski eiginlega aldrei hægt að ætlast til þess.

Alltaf þegar ég held að við séum að verða búnar að föndra alla búningana þá er eitthvað eftir. Í gærkvöldi prófaði ég t.d. snilli mína með límbyssu í myrkri. Ég brenndi mig mikið á puttunum og límdi ýmislegt saman sem átti ekkert að límast sérstaklega. Það er soldið fyndið að standa, akkúrat þessa dagana í umræðum á leiklist.is um ágæti þess að starfa með áhugaleikfélagi. Ef einhver spyrði mig í þessari viku af hverju ég væri að þessu mundi ég sennilega rífa hár mitt og skegg, bresta í grát og veina: "Ég veit það ekki, man það ekki AAARRRRRGGHHH!"
Svarið við sömu spurningu í næstu viku væri heins vegar eflaust útsofið og brosmilt: "Af því að það er svoooooo gaman..." Með dreymnum svip.

Tímasetning er allt.

Engin ummæli: