18.2.04

Þórunn Gréta (linkur hér við hliðina) er búin að vera að velta fyrir sér fegrunaraðgerðarmálum. Sem og Siggdís (líka linkur hér) og Páll Ásgeir (linkur frá Varríusi) velti fyrir sér um daginn fegrunaraðgerð Ruthar Reginalds. Nú er þetta eitt af eilífðarmálunum sem ég veit ekki alveg hvort ég nenni að velta fyrir mér, en finn samt ákveðna þörf... best að koma því bara frá sér svo það sé til friðs.

Það eru greinilega allavega tveir andstæðir pólar í þessu máli. Sumsé, fylgjandi því að menn geri bara hvað það við sinn skrokk sem þeim sýnist, ef þeim líður betur með það, og svo hinn póllinn sem finnst fólk vera að reyna að laga hluti utan frá, í stað þess að reyna að "vinna í sér". Þórunn Gréta velti upp muninum á fegrunar- og lýtaaðgerð. Vissulega góður punktur. Mér finnst bara erfitt að skilgreina hvað er "lýti", eða benda á ákveðna staðla í þvi efni.

En það er þetta með útlitið, almennt. Ég persónulega sé mig eiginlega aldrei og er nú bara svo sjálfhverf að ég velti því lítið fyrir mér hvað aðrir sjá. Ég verð hins vegar gífurlega hreykin og uppmeðmér ef menn hlusta á það sem ég er að segja, eða lesa það sem ég skrifa. Það finnst mér skipta meira máli heldur en hvernig skurnið lítur út. Í þessu efni er ég hins vegar ekki frá því að hið "fullkomna" útlit geti þvælst fyrir mönnum. Ég hef allavega ákveðna tilhneygingu til að afgreiða sætar stelpur með barbí-útlit sem óttalega lofthausa sem ég nenni ekki að hlusta á. (Oft náttúrulega komist að hinu gagnstæða, ef ég er pínd til að hlusta á þær og skammast mín þá hroðalega fyrir fordómana.)

Fegrunaraðgerðir ku menn stunda "fyrir sjálfa sig". Þ.e.a.s., til að þeim gangi betur að lappa upp á sjálfstraustið með því að spegla sig í áliti annarra. En eru einhverjir "aðrir" hæfari til að meta mann að verðleikum frekar en maður sjálfur? Einkum og sérílagi þeir sem þekkja mann ekki betur en svo að þeir hafa bara útlitið til að dæma eftir? Gerum við því virkilega skóna að "ókunnugir" séu eitthvað að mynda sér skoðun á tilvist manns, nema í mestalagi augnablik í eilífðinni?
Og á þessum síðustu og verstu tímum þegar allir eru á kafi í eigin hrukkum, er þá einhver að horfa hvortsemer?

Við erum öll ósýnileg í stórveraldlegu samhengi og því fylgir endalaust frelsi sem ég held að allt of fáir átti sig á. Menn velta sér allt of mikið upp úr þessu og hér með ætla ég líka að hætta því.

Engin ummæli: