14.4.04

Þessa dagana er ég að reyna að fara í ljós annað slagið, til að vinna á ljósgræna vetrarhúðlitnum. Mitt helsta vandamál í því átaki er hins vegar að finna útvarpsstöð sem ég get lifað með í eyrunum í 16 mínútur samfleytt. Í gær gafst ég upp á því að reyna að finna eitthvað skemmtilegt "lag" og ákvað í staðinn að leita uppi gufuna og hlusta á "eitthvað af viti". Og viti menn, allt í einu hljómaði söngur Kamillu úr Kardemommubænum. Það var verið að spila leikritið (eða plötuna) eins og það lagði sig og í ljósatímanum náði ég líka Veðurvísunum, og öllu þangað til Tobías í Turninum var búinn að gabba Soffíu frænku til að koma með sér á Kardemommuhátíðina. Rás eitt rúlar!

Þessi Egner-upplifun sendi mann náttúrulega á vit minninganna, og ég veit að það er ógurlega óviðeigandi að segja það, en mikið obbosslega var ég oft full í Kardemommubænum. Og að sýna barnaleikrit daginn eftir dimmisjon, get ekki sagt að ég mæli sérstaklega með því... En gaman varða. Ójá.

Og meira um leikfélög, hann Hugleikur er tvítugur í dag. Þar með akkúrat 10 árum og 10 dögum yngri en ég. Í tilefni af því er hátíðasýning á Sirkus í Tjarnarbíó í kvöld klukkan 20.00. Og það fer hver að verða síðastur að sjá þann ágæta gjörning, lokasýning er á laugardag.

Og fyrst maður er farinn að auglýsa menningarviðburði, þriðjudaginn 20. apríl næstkomandi, kl. 20.30, verða haldnir yfirgengilega merkilegir tónleikar í Borgarleikhúsinu. Þar skilst mér eigi að vera einhver slatti af "frægum", en það merkilegasta af öllu sem þar fer fram mun vera frumflutningur Lúðrasveitar Reykjavíkur á fyrsta tónverki Báru, systur minnar, "Hver tók ostinn minn?". Þessi fína sinfónía fyrir blásarasveit byggir lauslega á samnefndri sjálfhjálparbók, og kokkaðist hugmyndin af henni upp um svipað leyti og ég fór að prjóna töskur.

Allir mæta!

Engin ummæli: