21.4.04

Þessi síðasti dagur vetrar er að verða hinn happadrýgsti.

Komst að því að nú, þegar 9 dagar eru eftir af mánuðinum, á ég 40.000 krónur til ráðstöfunar, hvernig í veröldinni sem ég fór að því. Ákvað að fara í ÞVÍLÍKA eyðsluklóarferð. Fór niður í Erlu og keypti mér nál. Síðan niður í Tiger (þar sem allt kostar annað hvort 200 eða 400 krónur) og keypti dós til að setja hana í. Líður eins og ég hafi verslað mér allan heiminn. Hmm. Lítið gleður vesælan, og í þessari sögu felst sennilega svarið við því hvers vegna ég á alltaf eftir péning. Leiðist að versla og það sem mig langar í eru yfirleitt frekar ómerkilegir, en nytsamlegir, hlutir.

Annars er Tiger sniðug búð. Minnir mig á búð í Montpellier þar sem allt sem mann vantaði fékkst. Þar kostaði allt 10 franka, þess vegna hét hún Tíufrankabúðin. Þangað til Evran var tekin upp. Þá kostaði allt 3,60 evrur. Málið vandaðist, og eftir það hét hún bara "Búðin".

Semsagt, mikill happadagur og ég er hérmeð hætt að týna nálunum mínum.
Nú skal Aristóteles tekinn í bakaríið. (Ekki með nálum, samt, þó hann eigi það alveg skilið.)

Engin ummæli: