19.4.04

Er að verða algjör atvinnubetlari. Sótti um styrki í menningarsjóði í dag upp á krónur 100.000,- án þess að blása úr nös eða blikna eða blána, eða skammast mín fyrir að vera að ræna saklausa skattgreiðendur þegar mig langar á námskeið í útlöndum. Þeir verða örugglega kátir þegar ég græði landi og þjóð Nóbelinn! (Já, svona líka fram úr hófi hæfileikarík... og hógvær!) Merkilegt hversu margir sjóðir liggja á glámbekk, ef maður nennir að leita að þeim. Það er reyndar út af fyrir sig heilmikið grúsk.

Og þá er Sirkus liðinn undir lok. Lokasýning fyrir næstum fullu húsi síðasta laugardag og mikil gleði á Eyjaslóðinni að henni lokinni. Var síðan óskaplega dugleg að sofa í gær og held að batteríin séu að verða fullhlaðin, hef t.d. fullan hug á að hella mér í ritgerðina góðu seinnipartinn(!) Annars er Leikfélag Hafnarfjarðar eitthvað farið að kveina undan afskiptaleysi, reyni að láta sjá mig á æfingu hjá þeim einhverntíma í vikunni og á vinnudegi í þeirra húsi um næstu helgi. Svo er Hugleikur eitthvað farinn að huxa um einþáttunga, tek kannski einhvern þátt í því ef nenna og tími leyfa.

Annars bara, allt í góðum gír, held ég. Foreldrin mín á leið í bæinn á morgun og planið er að fara í faðmi fjölskyldunnar á tónleika í Borgarleikhúsinu á þriðjudagskvöld og að sjá Chicago á fimmtudagskvöld. Þetta verður sem sagt fjölskylduvæn vika.

Engin ummæli: