3.5.04

Þá er rúmlega mánuður í útferð og ég er búin að gera túdú-lista. Á honum er fátt, en alltsaman alveg hrúthundandskoti leiðinlegt. Endurnýja vegabréf, sækja um Visakort, og sollis. Oj. Þoli ekki að fara í passamyndatökur. (Sem er skýringin á því að myndin í debetkortinu mínu er síðan ég var 17 ára og sköllótt.)

Af skemmtilegri fréttum er það helst að mér skilst að nýr einþáttungur eftir mig sé á leiðinni á svið, hann heitir opinberlega "Listin að lifa" en óopinberlega gengur hann undir nafninu "Kúkaþátturinn". Svo er Hugleikur að leggja lokahönd á nokkra einþáttunga eftir hina afkastamiklu Þórunni Guðmundsdóttur og mér skilst að það eigi að sýna þá í Kaffileikhúsinu föstudags- laugardags- og sunnudagsköld um komandi helgi. Nánar auglýst síðar, en það sem ég hef séð og lesið af þeim eru hreinrætaðar snilldir og menn ætti ekki að láta þennan gjörning framhjá sér fara.

Svo fer að líða að Bandalagsþingi og einþáttungahátíð að Húsabakka...

...og þá man ég það. Mig dreymdi í nótt að ég var á skólanum á Húsabakka, en í draumnum ruglaðist þetta einhvern veginn allt saman við bernskuminningar úr Sumarbúðum Þjóðkirkjunnar á Eiðum. Hef aldrei áður áttað mig á því, en þetta eru ótrúlega svipaðar upplifanir.

Annars er ég náttlega ekkert að fara að vera þar. Búin að þrusa öllum yfirdráttarheimildum í botn og borga gjöld og ferðir til Írlands. Enda farin að grípa mig hin týpíska ferða-ógleði. Merkilegt að ég skuli alltaf vera að þvælast eitthvað. Eins og ég líð andlegar og líkamlegar kvalir við það. Verð hreinlega geðvond við tilhuxunina um að rífa mig upp eldsnemma á laugardaxmorgni til að fara í flug, og svo annað flug, og svo rútu, og hefja að því loknu einhverja hálfsmánaðar búsetu hjá ókunnugu fólki (sem eru örugglega bjánar) í einhverju landi sem ég hef aldrei komið til. Ojogpjæj. Held ég sé búin með ævintýraþrána fyrir lífstíð. Bara eins gott að þetta námskeið verði tómt gagn og gaman.

Engin ummæli: