18.5.04

Lengi er ég búin að nenna ekki að mynda mér skoðun á títtnefndu (og fáttannað nefndu) fjölmiðlafrumvarpi. Það er nefnilega einhvern veginn þannig að þegar byrjað er að ræða hver á hvað í þessu þjóðfélagi, þá er eins og mér hafi verið gefið full krukka af svefnpillum. Mér bara gæti ekki verið meira sama og mér heyrist þetta allt eiga hvert annað hvað sem öllu einkavæðingarbrölti líður. Mér finnst það heldur ekki neitt sérstakt tiltökumál. Ég er ekki einusinni neitt sérstaklega gömul, en ég man þegar ríkið átti helminginn af öllu, Samvinnuhreyfingin hinn. Þá var mér líka alveg sama. Samt sem áður, það kviknuðu pælingar.

Ef við göngum nú bara út frá því að Forsætisráðherra sé, eins og hann segir, EKKI í einkastríði við Jón Ásgeir og co. og ímyndum okkur að þetta frumvarp sé til komið vegna vel ígrundaðra áhyggja af eignarhaldi markaðsráðandi afla á fjölmiðlum. Sem sagt, þá eru menn að gera því skóna að fréttaflutningur þeirra fjölmiðla sé hlutdrægur, taumur Baugs dreginn í hvívetna og hann fái ókeypis auglýsingar og eitthvað og eitthvað.

Þá hlýtur maður að spurja, hversu litla trú hefur forsætisráðherra eiginlega á vitsmunum landans? Ég held að það væri alveg sama þótt bónusmerkið væri stillimyndin á Stöð tvö og Jón Ásgeir tilbeðinn í upphafi hvers fréttatíma, það er ekki eins og við myndum öll flykkjast í Bónus eins og heilaþvegin vélmenni. Satt að segja eru fréttir af Baugi og fylgifiskum yfirleitt ekki það krassandi að manni finnist miklu máli skipta hvernig er "tekið á" þeim. Enda á Davíð hinn stóra fjölmiðilinn sem skapar þá alltaf mótvægi, ekki satt? Aukinheldur, nú eru þessir "aðilar" á kafi í fyrirtækjarekstri á öðrum sviðum. Það þarf enginn að segja mér að þeir hafi tíma til að standa og lesa yfir axlirnar á fréttamönnum stöðvar tvö og fréttablaðsins til að passa að það sé nú ekki verið að skrifa neitt ljótt um þá eða þeirra fyrirtæki, neitt frekar en Davíð Oddson hafi tíma fyrir að leika fréttarýni fyrir ríkismiðlana.

Er sumsé búin að mynda mér þá skoðun að þetta frumvarp sé apalegt og annað hvort til komið af persónulegum urg í forsætisráðherra út í ákveðna menn eða þá vegna þess að hann álítur þegna sína fábjána.
Hvorugt er yfirvöldum til sóma.

Engin ummæli: