28.6.04

Er að velta fyrir mér hvort ég á að nenna að tjá mig um nýafstaðnar forsetakosningar. Er á mörkunum.

Finnst samt eitt merkilegt. Þegar menn eru að efast um það að Ólafur sé réttkjörinn forseti þjóðarinnar þar sem meirihluti kjósenda mættiekki/skilaði auðu/kaus aðra. Af öllum sem eru á kjörskrá kusu um 40 og eitthvað prósent Ólaf, og einhverra hluta vegna eru menn að líkja því saman við þegar framboð kom á móti Vigdísi Finnboga, þáverandi sitjandi forseta, og hún fékk yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, og yfirleitt er reyndar reiknað eftir allt öðrum reglum.

Það minnist hins vegar enginn á það að Vigdís var upphaflega kjörin með rúmlega 30% fylgi, rétt marði yfir næsta mann. Ekki var verið að væla um að forsetinn ætti að vera "sameiningartákn þjóðarinnar" og véfengja hennar "réttkjör" í þá daga. Enda er forsetinn náttlega bara sá sem flest atkvæði hlýtur og mjög alvarleg "aðför að lýðræðinu" að ætla að voga sér að halda öðru fram.

Ennfremur, ef öll kjörskráin er undir er ríkisstjórn landsins ekki endilega með meirihluta. Né heldur fullt af bæjarstjórnum. Og ég hefði nú haldið að mikilvægara væri að eining ríkti á meðal landsmanna um hverjir ráða heldur en hver situr á forsetastóli, ef við ætlum að fara fram á að réttkjörnir leiðtogar hafi 120% atkvæða á bak við sig.

Aukinheldur, ég bjánaði frá mér atkvæðisrétti mínum í þetta skipti. Fattaði ekki fyrr en á síðustu stundu að ég bý úti á landi og hafði ekki tíma eða skipulagsgáfu til að finna út úr því hvar ég ætti að kjósa. Það þýðir ekki að ég sé Sjálfstæðismaður eða ósátt við sitjandi forseta. Fjölmiðlafrumvarpið skal ég hins vegar kjósa niður með kjafti og klóm.

Er hins vegar komin í óvænta stöðu í leikskrifum mínum. Er að vinna afskaplega pólitískt verk um græðgisvæðingu nútímans. Allt í einu erum við Davíð orðin sammála. Á dauða mínum átti ég von!

Engin ummæli: