Þar sem nú er að bresta á nýr þvælingur til útlanda, fer kannski að verða kominn tími á að birta skýrslu þeirrar síðustu. Ég "bloggaði" sem sagt nokkuð ítarlega úti í Írlandi þar sem ég var á leikritunarnámskeiði 5.-18. júní sl. Núna er ég að huxa um að birta það, í einhverjum slöttum, næstu daga.
Síðast þegar ég fór á námskeið í útlöndum hélt ég ekki dagbók í neinu formi og þar sem enginn var þar sem getur munað neitt með mér, þá er ég örugglega búin að gleyma næstum öllu skemmtilegu þaðan. Í þessari ferð skal því hvert smáatriði skráð á splöld sögunnar, og skal ekki eitt einasta týnast.
5. Júní
Ferðasagan:
Eins og við var að búast var dagurinn allur hinn hörmulegasti. Þurfti náttlega að byrja á að skilja kallinn efitr á flugvellinum, hann var reyndar ekki alveg að skilja hvað ég væri að verða ógurlega tilfinningasöm með það, þar sem “þetta er nú bara hálfur mánuður”… ég hef hins vegar tekið þátt í svona geðveikjum áður og veit að við ?essar aðstæður þá gerist svo margt að hver dagur er nánast sem þúsund ár. Ég er sem sagt að fara í burtu í fjórtánþúsund ár, og finnst bara alveg eðlilegt að vera sorry að þurfa að skilja kallinn sinn eftir heima í allan þann tíma.
Flugin, fyrst til London og svo til Írlands, voru náttlega jafn óþolandi og slík eru. Ég komst líka að því, mér til mikillar pirru, að ég myndi ekki að óbreyttu ná tengifluginum mínu til Íslands, þannig að ég þarf að reyna að finna annað flug fyrr um daginn frá Cork til London (ef ég finn einhvern tíma internet).
Allavega, allt horfði til skánaðar um leið og ég kom til Cork. Leigubílsstjórinn sem keyrði mig þangað sem ég átti að hitta hitt fólkið gat sagt mér að það væri önnur íslensk kona að fara á leikritunarnámskeið í Allihies. (Sem hann kenndi mér líka að væri sagt “Allahís”.) Það hafði nebblega annar leigubílsstjóri verið að monta sig af því á stöðinni daginn áður að hann hefði verið að keyra íslenskt leikskáld. Minn maður var náttleg mjög hamingjusamur yfir að vera nú ekki minni maður… Ég er búin að komast að því að hún heitir Elísabet, mig grunar að hún sé Jökuls, en ég er ekki búin að hitta hana ennþá.
Í Cork hitti ég hins vegar næstum alla hina úr hópnum. Þær eru allar Kanar, margar frá New York. Ætla að skrifa meira um þær þegar ég verð búin að kynnast þeim betur og man allavega hvað þær allar heita. Þá tók við 3 tíma mínírútuferð til Allihies. Við kjöftuðum og spjölluðum alla leiðina, en landslagið tók undarlegustu breytingum. Klettar fóru að standa upp úr þessu græna, sem breyttinst smátt og smátt úr trjám í kjarr og mosa. Eftir svona klukkutíma akstur þá bara var ekki um neitt að villast. Við vorum á Íslandi. Undir áhrifum frá þessum landslagsbreytingum fóru stúlkurnar allt í einu að velta fyrir sér hvað orðið “heath” þýddi. Eitthvað vafðist nú fyrir mér að útskýra hugtakið heiði. Þangað til við fórum yfir eina slíka.
Það var rétt áður en við fórum í gegnum Castletownbeare, sem er svona sambland af Dalvík og Djúpavogi, og stuttu seinna komum við til Allihies. Allihies lítur út eins og Breiðuvík í Barðastrandasýslu, bara með aðeins fleiri húsum. (Elísabet segir reyndar Aðalvík á Hornströndum.) Okkar námskeið, vinnuaðstaða og hvaðeina (Centrið) er í gömlum barnaskóla, sem er algjört gargandi æði, með öllu sem við þurfum, en engu framyfir það. Hér er skemmtilegt bókasafn, fullt af hljóðfærum og myndlistardóti sem við megum leika okkur að eins og við viljum. Hlakka mikið til að fikta í öllu. Húsið er eldeldgamalt og veggirnir eru yfirleitt bara grjóthlaðnir… ég þarf eiginlega að útvega mér myndavél.
Kanastelpurnar (sem margar hafa alið allan sinn aldur í stórborgum, sumar jafnvel lítið komið út fyrir Manhattan árum saman) eru náttlega mjög impóneraðar yfir þögninni, útsýninu og öllu þessu “íslenska”. Ég er hins vegar eiginlega eins og ég sé komin í Svarfaðardalinn. (Tilviljun? Ég held ekki.)
Áfram með söguna. Okkur var skipt niður á heimili og ég reyndist eiga að deila herbergi og heimili með stúlku sem heitir Carrie, og það hérna alveg í miðbænum. Það kom sér nú aldeilis vel, þar sem við tvær vorum einmitt búnar að ræða það okkar á milli að reyna að athuga írska krá áður en við færum að sofa, en enginn annar virtist hafa áhuga á því. Við Carrie enduðum sem sagt daginn með því að fara á írskan bar (ég var mjög hrifin af að koma á írskan bar í Írlandi, loxins, og ekki minna hamingjusöm með þá uppgötvun að í Írlandi eru ALLIR BARIR ÍRSKIR!!!)
Við fórum nú samt bara á einn í gærkvöldi, hlustuðum á 3 kalla spila á gítar og syngja allt frá Elvis til Oasis. Enduðum á því að lenda á spjalli við írskan málara og tengdason hans, þar sem við gerðum okkar besta til að leysa málin í mið-austurlöndum. Miðaði reyndar lítið, en þetta amerísk-írsk-íslenska samstarf lofaði samt góðu.
Eins og ég sagði, hver dagur sem þúsund ár. Búin að vera í þúsund ár að heiman.
Þetta var sem sagt fyrsti dagurinn, fleiri koma næstu daga.
23.7.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli