Góð helgi fyrir austan. Mikið af fjölskyldutíma og sá framan í nokkra vini. Faðir minn fór með eftirburði sína í útskriftarferð um dýralíf hálendisins, við sáum:
1 kött
8 hunda
3 heimalinga
nokkra jökuldælinga
1 skálavörð
og slatta af verkamönnum.
Auk þess að sjá vítt og breitt um hálendið. Kárahnjúkavirkjun sést bæðevei næstum hvergi, nema maður standi í henni miðri. Þetta var hin besta ferð og mjög fræðandi nú getur maður rifið sig við bæði virkjunarsinna og andstæðinga.
Á sunnudag heilsaði ég svo uppá bæði Aðalbjörninn og Rannveiguna og þau báðu að heilsa (taki til sín þeir sem svo sýnist).
Þetta var reyndar allt of stuttur tími fyrir austan, er með mikil plön um að eyða þar stórum hlunk úr næsta sumarfríi. Held ég taki samt góða veðrið með mér þá. Þetta var svona meira eins og ferð á Svalbarða, veðurfarslega séð.
Þegar heim kom sótti mig síðan á flugvöllinn einhver undarlegur maður með hermannaklippingu. Ekki kannaðist ég nú mikið við kauða, en held helst að þetta hafi verið mannræningjaóbermið úr rauðhærða riddaranum.
Endurnýjaði kynni mín við vigt, komst að því mér til hrellingar að við svo búið má ekki standa. Allt að því 10 kíló verða að fara, annars stefnir í óefni, hjartaáföll og kransæðastíflur. Nú liggur lífið við að labba allan fjárann og éta kál.
Og þá er bara strax komin vika aftur. Ég er ekki að nenna því.
19.7.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli