13.3.04

Þá er komin, tjah, eiginlega vanhelgi. Stjórnarfundur hér á Bandalaginu í dag, og ef við náum ekki að klára hann, líka á morgun, sýningar hjá Hugleik í kvöld og annað kvöld... og svo verður bara aftur kominn mánudagur. Svona á þetta að vera, annars eru helgar svo gjarnan leiðinlega gagnslaus tími. (Sérstaklega fyrir fólk sem á að vera að skrifa ritgerðir og leikrit og nennir því ekki.)

Fór á frumsýningu hjá Leikfélagi Kópavogs í gærkvöldi á leikritinu "Smúrtsinn" í leikstjórn Harðar Sigurðarsonar. Það var algjör gargandi öskrandi snilld á alla kanta, frábær leikhópur, skemmtileg nálgun á þessu klikkaða verki, flott útlit, tónlistarnotkun, lýsing og bara hvergi brotalöm. Félaginu og heiminum öllum til algjörs sóma. Þar fyrir utan finnst mér Hjáleigan í Kópavogi vera einn skemmtilegasti leiksalur sem ég hef séð. Svartur ferkantaður kassi, ekki of stór, sem er síðan hægt að snúa og gera við hvað sem hvur vill. Næst þegar ríkisstjórn Íslands fer á málamyndaflipp og ætlar að ausa peningum í húsbyggingar um allt land (til að komast hjá því að styrkja starfsemina af einhverju viti til frambúðar) finnst mér að öll starfandi leikfélög ættu að fá eitthvað svipað til umráða.

Búið að auglýsa skólann góða í Svarfaðardalnum. Skemmst frá því að segja að eitt námskeiðið fylltist á um 6 klukkutímum eftir að opnað var fyrir skráningar. Þar af leiðandi þarf sennilega eitthvað að endurskoða skráningafyrirkomulag þar sem ólíklegt er að allir bæklingar í "sneilmeil" hafi verið komnir til skila. Þetta er hins vegar alveg splunkunýtt vandamál, eftir því sem ég best veit, síðast þegar ég var að vinna hérna þá vorum við nú yfirleitt frekar að naga á okkur neglurnar yfir því hvort lágmarksþátttaka næðist, og stundum fram yfir umsóknarfrest. Reyndar eru 3 námskeið af 4 sem við getum verið í þeim pakka yfir. En svona er þetta, það er greinilega tískan að vera trúður.

Og ég er mjööög upptekin af því þessa dagana að vera 29 ára. Enda eins gott að nota tímann!

Engin ummæli: