16.2.05

Að vera í leikfélagi er góð skemmtun.
Sérstaklega þegar gengur vel, allir eru glaðir, og leikstjórinn tekur magnaða sýnikennslu í því hvernig á að slást við klósettpappírsrúllu. Það er nú bara með því fyndnara sem ég hef nokkurn tíma séð, og á eftir að vekja mér fliss í tíma og ótíma um ókomin ár.
Lítið gleður vesælan.

Annars er víst Höfundafundur hjá Hugleiki um helgina.
Er að huxa um að róta aðeins í skúffunum og félaxheimilinu og vita hvað ég finn.

Og bíllinn er farinn í langþráða framrúðuaðgerð! En að sjálfsögðu gerðist það ekki fyrr en næsta vandamál lét á sér kræla, núna logar á honum rafmagnsljós öllum stundum. Megi skrattinn hirða öll ökutæki heims.

Er líka farin að bölva þessum vetri hraustlega oft á dag. Hann hefur nú staðið yfir áratugum saman og verður meira pirrandi með hverju hreti. Þá leggst maður undir feld og hugsar um frostaveturinn mikla, 1999-2000, þegar ég bjó í Kópavogi, átti ekki bíl, enga úlpu og götótta kuldaskó og innkoma komst ekki einu sinni nálægt því að duga fyrir uppsöfnuðum neysluskuldum. Það var einmitt þá sem ég parkeraði vísakortinu og yfirdráttarheimildinni. Já, þessi vetur er nú kannski ekkert svo slæmur.
Hef séð þá verri.

Snjóaveturinn mikli er reyndar ekki leiðinlegur í minningunni. Stúdentaleikhúsið endurstofnaði sig með sýningu á Tartuffe, og við Svandís hittumst gjarnan á miðvikudagskvöldum og átum klósettpappír. (Klósettpappír hefur sem sagt oft spilað merkilegar rullur í lífi mínu. Alveg burtséð frá tilætlaðri notkun.) Það var nú ágætis hefð. Þess utan gerir fátæktin mann einstaklega hoj og slank. Myndir af sjálfri mér frá þessum tíma vil ég að menn þykist að hafi endurspeglað mitt rétta útlit, að mér framliðinni.
Fátt er svo með öllu illt...

Engin ummæli: