20.4.05

Óþægð

Stundum er gaman að vera Lína Langsokkur. Maður getur leikið sér í "ekki koma við gólfið" langt fram á kvöld, farið að sofa þegar manni sýnist, dundað sér við að raða öllum sjampóunum sínum og baðdótunum eftir stærð, lit eða stafrófsröð, vaskað ekki upp í marga daga, og svo framvegis.

Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að maður getur verið svo lifandis skelfing óþægur.

Til dæmis, ef maður er með flensu, og það er rok og rigning úti, en mann langar samt til að fara á námskeið, þó maður megi tæknilega séð ekki fara út, þá getur maður bara gert það. Og látið sér verða alveg heilmikið kalt.

Og þá getur manni hefnst mjög grimmilega. Og þó maður geti vissulega skemmt sér við að ímynda sér að maður eigi apa og hest sem maður getur haldið á, er ekkert sérstaklega skemmtilegt að vera aleinn og veikur í marga daga með engann til að vorkenna sér.

Enda er ég að fara norður á eftir í síðbúið vorkenn.

Annars vil ég meina að ég hafi verið í samúðarrúmlegu. Hef grun um að hún Svandís mín hafi ekki enn tekið sprettinn, hún var að eignast barn á sunnudaginn. Litla fjölþjóðlega stúlku (hálf-íslensk, hálf-ensk og fædd í Frakklandi) hverrar tilvist mér finnst ég bera örlitla ábyrgð á. Það var jú mín hugmynd að flengjast til Montpellier, fá móður hennar í heimsókn og kynna hana svo fyrir föðurnum. Þannig að það var kannski ekkert að ástæðulausu að Alheimurinn ákvað að ég skyldi bara sjálf fá að liggja í samúðarskyni þessa daga og dreyma mikinn til Montpellier.

Heilsist litlu fjölþjóðafjölskyldunni, ef hún þetta sér.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Okkur heilsast alveg prýðilega vel og þökkum góðar kveðjur. Vonum að þú sért nú úr rekkju risin líka :)

Svandís, Jonathan og Heiða Rachel