Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera tungumálsnasisti. Nú er ég búin að vera að reyna að lesa mér til um ráð við grindverk og er orðin nett pirruð. Mér finnst nefnilega að það ættu að vera lög gegn hvers konar líkingamáli nema það sé snjallt og/eða fyndið. Þess vegna liggur mér við ælu þegar mér er ráðlagt "að hlusta á líkama minn". Væminn viðbjóður sem þjónar engum tilgangi nema að valda manni velgju. Af hverju ekki bara að segja manni að "vera ekki að gera það sem er vont"?
Í því samhengi datt mér frumburður minn í hug. Þ.e.a.s., ekki sá sem nú er í ræktun, heldur sá sem gerði tilkall til þess titils fyrir mörgum árum síðan. Það vita það kannski fáir, en um nokkurt skeið var ég einstæð 7 barna móðir í Montpellier. Þá veitti ég nokkrum íslenskum stúdentum móðurlega umhyggju í hvívetna og enn heilsa þau mér með "Salut maman" á msn, þau sem ég held einhverju sambandi við. Þar er nú aðallega maðurinn sem kynnir sig ævinlega sem Frumburð. Hann Aðalsteinn.
Hann á einmitt tvær góðar línur sem ég kem aldrei til með að gleyma.
Önnur kom þegar við vorum einhvern tíma á gangi og vorum bæði búin að verða illa úti á markaðnum, eins og gengur. Sem við göngum og ræðum ógæfu okkar segir Frumburður, í mæðutón:
„Það borgar sig ekki að fjárfesta með tilfinningum sínum í hjörtum annarra.“
Hin kom þegar hann sagði um konu sem honum var illa við:
„Ég fyrirlít jörðina sem hún gengur á!“
Ég er enn að bíða eftir að mér verði nógu illa við einhvern til að geta notað þetta orðatiltæki. Báðar á ég örugglega eftir að nota í leikrit.
19.7.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Það er ein manneskja í mínu lífi sem verðskuldar síðustu lýsinguna... hún er að fara að giftast bróður mínum :(
Skrifa ummæli