21.7.05

Mikið svakalega dreymir mig

þessa dagana. Í nótt vorum við Rannsóknarskip að huxa um að versla okkur gistiheimili útí sveit. (Sem var ýmist staðsett uppi á Fjarðarheiði, í Fellunum eða einhvers staðar í nágrenni við Freyvang. Semsagt, eitthvað eff.) Ekki vorum við nú heldur aldeilis ein í þessu braski heldur ætluðu að vera með Inga Lára Smábátsamma, Guðlaug systir hennar og móðir Rannveigar minnar og Elísabet mágkona. Þetta var mikil athafnasemi, og stundum var ég í þessu umrædda húsi, en það virtist skipta um lögun í hvert skipti. Stundum var eins og starfsemin væri komin í blússandi gang, en stundum vorum við bara að undirbá að fara að skoða. Þetta var hreint ekki neitt í réttri tímaröð. Ætli þetta sé fyrir einhverju? Kannski við eigum fyrir okkur framtíð í Ferðaþjónustu Bænda?

Fékk auðvitað hjátrúarkast í framhaldi af þessum draumförum. Skoðaði ýmsar draumaráðningar sem segja nú lítið um hús nema að þau eigi að endurspegla lífið manns, sérstaklega ef mann dreymir að maður býr í þeim. Um drauma atvinnurekstur segir lítið og virðist það fara mest eftir því hvort vel gengur eða illa. Og það bara kom ekki fram.

Svo fletti ég dáldið í japanskri stjörnuspeki, fann þar m.a. leitarvél sem gat spáð sérstaklega fyrir mínum fæðingardegin og fæðingartíma. Þar kom fram að heppnin yrði nú aldeilis með mér eftir þrítugt. Miðað við aðalstjörnumerkið mitt sem er tígrisdýr. Miðað við tunglmerkið mitt sem er dreki verður heppnin með seinni hluta ævi minnar. Þannig að það lítur vel út með framhaldið, þó mér finnist ég nú reyndar hafa verið nokkuð heppin hingað til. Og miðað við dagstímamerkið mitt, sem er svín, er rauður happaliturinn minn. Tilviljun? (Hummar Nallann.)

Engin ummæli: