18.7.05

The Ringsteds

þá er búið að gifta þau Ylfu og Harald og varð veislunni margtí. Gaman að koma á Ingjaldssand við Önundarfjörð, hitta margt mis-ókunnugs fólks og svo alveg framvegis og framvegis. Hugleikarar fjölmenntu nokkuð og stóðu fyrir mis-viðeigandi skemmtiatriðum undir stjórn Sævars Sigurgeirssonar. Þar kenndi ýmissa grasa, en ekki var laust við að nokkrar grímur rynnu á fjölskyldur brúðhjónanna af eldri kynslóðinni þegar Bibbi flutti 2 lög um limlestingar og dauða, eða þegar Bjössi Thor sagði söguna af því þegar hann sá brjóstin á Ylfu. En þess ber auðvitað að minnast í því samhengi að Halli var auðvitað einu sinni mikill pönk-rokkhundur og ekki annað við hæfi en að minnast örlítið á brjóstgæði brúðarinnar við téðar aðstæður.

Óska brúðhjónunum enn og aftur til hamingju og góðrar ferðar til Prag.
(Já, og auðvitað Tótu líka.)

Varð hins vegar nokkuð huxi yfir eigin seinþroska. Nú vill svo til að við brúðurin erum næstum nákvæmlega jafnöldrur. Og á meðan mér er rétt að takast að gabba einn mann til að barna mig, þá er hún búin að ná tveimur og meira að segja búin að véla þann síðari til að kvænast sér. Svo er ég heldur ekki búin að mynda mér neina skoðun á því hvernig eigi að baka pönnukökur, en ég heyrði á umræðum við brúðkaupsundirbúning að trúlega er ég ein kvenna á Íslandi um að kunna það ekki einu sinni.

Þarf greinilega að fara að halda á (pönnuköku-) spöðunum.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Hugleikarar fjölmenntu nokkuð og stóðu fyrir mis-viðeigandi skemmtiatriðum undir stjórn Sævars Sigurgeirssonar."

Ég tek það fram að allir sem komu fram í brúðkaupinu, Hugleikarar sem aðrir, gerðu það á eigin ábyrgð og voru ekki "undir minni stjórn". Ég var bara kynnir.

Varríus sagði...

Og ég get vottað að eftir reynslu Sævars úr eigin brúðkaupi af misviðeigandi skemmtiefni félaga sinna þá er hann manna ólíklegastur til að kalla eftir einhverjum dónaskap þar sem hann stýrir veislum.

Nína Björk sagði...

Þér til huggunar Sigga Lára mín þá hef ég enga skoðun á pönnukökubakstri, en státa þó af því að eiga pönnu. Ég hef bakað pönnukökur að ég held einu sinni frá því ég hóf búskap og þá fór ekki betur en svo að viskustykki flæktist í rafmagnsþeytaranum og deig slettist upp um alla veggi. Pönnukökurnar voru samt mjög góðar en ég man ekkert hvort það var salt í þeim eða ekki.
Svo ég haldi nú áfram að láta þér líða betur... þá er ég 361 degi yngri en þú og ári og einum degi yngri en frú Ringsted og hef samt engri börnun náð og er bara aumur némandi í útlöndum..... Þannig að þú ert mjög advanced frá mínum bæjardyrum séð. Hef þó staðið í fasteignabraski og tel mig hafa þroskast nokkuð við það.

Sævar! Þú stóðst þig eins og hetja í veislustjórninni og við vitum öll að Bibbi, Ármann og Bjössi Thor skandalíseruðu af eigin frumkvæði og á eigin ábyrgð.

Spunkhildur sagði...

Hmm... Ég átti hina fullkomnu pönnukökupönnu. Hinsvegar kann ég ekkert að búa til pönnukökur, svo ég skemmdi bara pönnuna með því að spæla á henni egg. Það nebblega kann ég....

Litla Skvís sagði...

Ég er með þér í "kann ekki að baka pönnsur" klúbbnum. Hef gert nokkrar tilraunir sem að allar hafa endað með miklum hamförum og jafnvel táraflóði.

Nafnlaus sagði...

Ég skal reyndar viðurkenna að á einhverjum tímapunkti hvatti ég Bibba til að troða upp svo kannski ber ég e-a minni háttar ábyrgð á hinni "splatter"-kenndu stemningu sem myndaðist í brúðkaupinu. En hún er mjöööööög minniháttar.