30.9.05

Þá veit maður það

Ef bloggerinn manns birtist á kóresku í tölvunni manns, og maður sé kannski pínu fullur, þá borgar sig ekki að fara að fikta í settöppinu sínu og giska á hvaða takka skal ýta á til að vista. Þessi fróðleiksmoli var í boði Varríusar.

Annars er að koma klukkan 13.00 á föstudegi og það ætti að þýða helgarfrí, eða hvað? Nei það er nú eitthvað annað. Bandalagið heldur námskeið í Hafnarfirðinum, þannig að þar sé ég fram á að halda til, allavega eitthvað, í húsnæði Leikfélags Hafnarfjarðar en svo þarf ég að reyna að þýða og endurskrifa eitthvað í Jólaævintýrinu. Rannsóknarskipið sækir téð námskeið sem nemandi, en svo vill til að Smábátur siglir eftir hádegið norður í sín önnur föðurhús þannig að hann ætti aldeilis ekki að verða jafnvanræktur um helgina og horfur voru á.

Er annars búin að kenna allri fjölskyldunni að éta spínat, meira að segja Smábáti, sem er annars ekki mikið fyrir fæði að hætti sauðkinda.

Og það verður nú samt fjölmenni í Imbu-Skjálf um helgina. Þau eigendahjón eru á svæðinu vegna frumsýningar hjá Hugleik (semsagt, Dagssyni, þess sem minn Hugleikur heitir eftir) auk þess sem Jón "Eymundson" mágur ætlar að gista hjá okkur eina nótt á leið sinni erlendis þar sem hann kemur til með að baða sig í ljóma rokkstjörnunnar með hljómsveitinni sinni Hekkenfeld á leið sinni til Suður-Ameríku, hvar hann hyggst ala manninn langt fram á næsta ár.

Sem sagt, gargandi gestagangur sem við hjónaleysin megum minnst vera að því að sinna.

Engin ummæli: