19.10.05

Hún París Hilton hin íslenskari

Ég gleymdi alltaf að tjá mig um litlu stúlkukindina sem keypti af mér íbúðina. Hún var nefnilega alveg framhaldssaga út af fyrir sig.

Þegar ég mætti á sölufundinn hitti ég hana fyrst. Stelpa um tvítugt, soldið þybbin, í einhverju voða bleiku. Ég talaði nú samt minnst við hana. Mamma hennar var nefnilega með. Kaupandi sat sumsé meirhluta fundarinn með fýlusvip og sagði fátt nema annað slagið, í tón sem krakkar nota gjarnan í vondu skapi:
- Ég skil ekkert í þessu.
Og þá sagði mamman:
- Neinei, svona svona.
Á einhverjum tímapunkti ákvað Frú Fasteignasalinn að pabbi hennar þyrfti að koma líka. (En hætti svo við það... hún var nefnilega eiginlega önnur framhaldssaga.)
Kaupandi reif upp símann, hringdi og sagði:
- Pabbi, þú átt að koma líka... Æi, bara.... Æi, mamma talaðu við hann.
Og henti símanum í móður sína.

Allavega, í gegnum þennan sölufund komumst við nú, föðurlaust, og án þess að ég missti andlitið mjög mikið í forundran. Sem oft lá þó nærri, með þetta undarlega tvíeyki fyrir kaupendur og fasteignasala sem hafði búið til vitlausa pappíra um næstum allt og þurfti að gera allt aftur á meðan við vorum þarna. Og, eins undarlegt og það nú var, þá hafði ég á tilfinningunni að hún væri bara að því til að sýna að hún kynni það.

Næst hitti ég þær mæðgur við afhendingu. Hitti þær í íbúðinni, sýndi þeim hvar rafmagnstaflan var og svoleiðis. Kaupandi hafði meðferðis móður sína, sem þjónaði öllum duttulungum eftir bestu getu, og svona lítinn töskuhund, eins og ofdekraðar stelpur í Hollívúdd eiga! Ég átti aftur ógurlega bágt með mig og hálfsá eftir því að hafa ekki skilið eftir nokkrar faldar myndavélar í íbúðinni. Þetta var að verða athygliverðara með hverjum hittingi.

Síðustu fundir mínir við nýjan eiganda voru við afsal. Þá voru báðir foreldrarnir með í för. Faðirinn var alveg jafn auðmjúkur þjónn og móðirin, og kaupandi hálfu gelgjulegri og geðverri. Einu sinni var ég næstum búin að missa stjórn á andlitinu á mér í eitthvað á milli hláturskasts og forhneykslunar. Það var þegar kaupandi sagði, einu sinni sem oftar:
- Æi, ég skil ekkert í þessu!
Og móðirin sagði, yfirgengilega róandi röddu, svona eins og hún væri að tala við um 5 ára barn:
- Neinei, elskan mín, ég skal bara útskýra þetta fyrir þér þegar við komum heim.

Þetta er trúlega eitt besta sýnidæmi sem ég hef séð um afleiðingar ofdekrunar.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Get ekki stillt mig um að sína þér dekrið mitt - það er að segja nýjasta tómstundagamanið í vinnunni http://lovisalaukur.barnaland.is

fangor sagði...

haha! þetta bjargaði alveg fyrir mér deginum :þ

Litla Skvís sagði...

Hehehehe!!!!!!!!

Ásta sagði...

Þarna er sennilega komið fyrsta fullorðna fórnarlamb "mamma er ekkert reið, hún er bara leið yfir því að þú skyldi kjósa að tjá tilfinningar þínar með því að kveikja í jólatrénum lambið mitt" uppeldisaðferðarinnar.