25.10.05

Kvennafrídagurinn

fór framhjá mér vegna annríkis. Barnið mitt blóðsugan sá reyndar til þess að ég fór ekkert í vinnuna sökum blóðrannsókna og yfirliðu og svo missti ég af baráttufundinum útaf grindverk. Var þar þó mikið með í anda.

Og hefði að sjálfsögðu átt að skrifa magnað rant um kvenréttindabaráttu í gær. En mátti ekki neitt vera að því (og datt ekkert í hug vegna blóðsogs) þannig að ég geri það bara í dag í staðinn. Vona bara að ég komi einhverri reglu á það sem ég er að hugsa.

Er jafnréttisbarátta fásinna og óþarfi í dag?

Nei, það er hún ekki, á meðan það er kynbundinn launamunur í landinu. Hins vegar er líka annað mál sem mér finnst þurfa að skoða. Það er margt sem er bara á bandvitlausum stað í launastiganum. Mér þykja kennsla og umönnunarstörf hverskonar vera hryllilega mikilvæg störf. Ég vil að krakkarnir mínir (og annarra) fái almennilega menntun svo þau verði ekki öjlar. Og þegar ég verð gömul, vil ég að sjúkraliðarnir sem skeina mig verði á góðum launum. Ég nefnilega efast um að það verði gott eða skemmtilegt starf. Einhver þarf nú samt að gera það, ekki ætla ég að geta það sjálf.

Ég held við séum komin á þann stað (eða ég vona það) að konur, og allir, geri sér grein fyrir því að þeir geta menntað sig og starfað við hvað sem þeir hafa áhuga á. Óháð stétt, kyni, uppvexti, eða hvort pabbi viðkomandi er góður í stærðfræði. Samt sem áður virðast konur frekar sjá um menntun og umönnun en karlar. Ég veit ekki hvort það er endilega slæmt. Það fer kannski ekkert hjá því að alltaf verði einhver kynbundinn munur á fjölda fólks eftir áhugasviði. Hins vegar eru þessi störf með allra mikilvægustu störfum þjóðfélaxins og ættu auðvitað að vera mikkkklu hærra launuð en FULLT af sjórnunarstöðum.

En, já, jafnréttisbaráttan. Ég held það sé fullt eftir af henni. Mér finnst ég allavega alltaf vera að heyra eitthvað nýtt og kvenfyrirlitlegt. Fyrir ekki mörgum árum stóð ég á strætóstoppistöð og heyrði á tal nokkurra unglingspilta. Þeir voru að reyna að vera svalir, hver fyrir öðrum. Þar heyrði ég m.a. setninguna: "Sko, kellingar, bara ríða þeim og berja þær." Í kasúal samtali, og þetta var ekki einu sinni grín.

Fyrir ekki mörgum árum "reið" yfir skriða hópnauðgana, nokkrar verslunarmannahelgar. Þá kom berlega í ljós að heilum haug af karlmönnum þóttu nauðganir ekki bara sport, heldur fínast hópíþrótt!!! Þegar ég sat á Bautanum á Akureyri á sunnudegi, einhvern tíma í fyrra, heyrði ég á tal nokkurra karlkyns háskólanema. Þeir voru að tala um skemmtan kvöldsins áður. Hafði þar komið við sögu eitthvað af kvenfólki. Það sem stakk mig var að engin þeirra var nefnd á nafn, allt samtalið. Þær voru flestar "Gellan sem [þessi eða hinn] reið."

Mér finnst gífurlega jákvætt að mér finnst ég sjá karlmenn vera farna að blanda sér í jafnréttisbaráttuna meira en áður. Þeir sem haldnir eru kvenfyrirlitningu eru nefnilega ekkert að fara að hlusta á kellingar, yfirhöfuð.

Versta bakslag sem komið hefur fyrir jafnréttið undanfarin ár er það sem ég vil kalla Simpson-heilkennið. Mér þykja þættirnir um Simpsons-fjölskylduna gargandi snilld. En fyrir einhverja fávita var greinilega ótímabært að fara að gera grín að vanhæfa fjölskylduföðurnum, þar sem upp reis einhver undarlegur þjóðflokkur Hómer-wannabees sem taldi sig, í krafti karlmennsku sinnar, ekki þurfa að viðhafa lágmarksmannasiði í mannlegum samskiptum. Sérstaklega ekki við sína nánustu. Eins og þeir hafi ekki alveg náð því að ÞETTA VAR GRÍN! Þetta fólk er fullkomlega óþolandi. Og þetta eru alltsaman karlmenn. Og ég þekki fáránlega marga svona.

Þetta hafði þau ömurlegu áhrif að upp spratt aragrúi gamanþátta í hverjum húsbóndinn á heimilinu er undantekningalítið feitur og undantekningalaust heimskur og faltaður í mannlegum samskiptum og hagar sér eins og ofvaxinn smákrakki.

Það sem pirrar mig við þessa þætti er hins vegar fyrst og fremst sú mynd sem dregin er upp af kvenfólki. Það er þessi altumfyrirgefandi rödd skynseminnar sem umber Hómerinn. Óspennandi, leiðinleg, undirokuð og skoðanalaus gólftuska sem sættir sig bara við það, nokkurn veginn þegjandi og hljóðalaust, að makinn sé erfiðasta barnið á heimilinu. Huxar sem svo að betra sé að veifa röngu tré en öngu, þegar mér finnst dagljóst að betra sé autt en illa skipað rúm.

Þetta finnst mér vera óhugnalega nálægt steríótýpunni af konu. Steríótýpan af Konu er ekki beint skemmtileg. Hún vill alltaf ryksuga þegar það er fótbolti í sjónvarpinu. Hún er þröngsýn og dómhörð og að mörgu leyti viktoríönsk. Hefur t.d. ekki kynhvöt.

Ég hef aldrei hitt steríótýpíska konu.

Og þarna liggur kannski rót vandans. Steríótýpur karla og kvennna þvælast fyrir og lítt greindar manneskjur taka þær sér til fyrirmyndar. Strákar skulu vera sterkir og tilfinningalega fatlaðir og stelpur sætar og meðfærilegar. Það eru kannski þessar bábiljur sem fyrst alls þarf að ráðast á?

Þetta var nú aldeilis óskipulegt rant, í tilefni kvennafrídax.
Reyni að gera betur eftir 30 ár.

8 ummæli:

Magnús sagði...

Það er nefnilega magnað hvað margar mannskepnur eru algjörir apar og fylgja fáránlegum fyrirmyndum í blindni. Hellisbúaheilkennið er ekki að karlar hafi tilhneigingu til að vera formúlu- og fótboltaveikir þvergirðingsfábjánar, heldur finnast hugmyndin frábær að vera stikkfrí frá eðlilegum kröfum um þroskaða mannlega hegðun af því að asnalegar staðalmyndir um fíflagang eru alls staðar. Þó þær séu stundum augljóslega háð.

Sigga Lára sagði...

Mér finnst orðið þvergirðingsfábjáni gott. Hef huxað mér að nota það einhvern tíma við verðugt tækifæri.

Nafnlaus sagði...

Vá! Þessi pistill var jafnvel lengri en minn kvennarfrídagspistill! Húrra fyrir þér. (og þá ekki aðeins vegna lengdarinnar heldur innihaldsins)

Nafnlaus sagði...

Meirihlutinn af þessum pistli er eins og skrifaður frá mínu hjarta! Sérstaklega þetta með Hómer-heilkennið og sjónvarpsþættina! Alveg óþolandi margir svona lásí þættir í boði þar sem kellan er gribba og kallinn latur og hómerslegur.

Litla Skvís sagði...

Úff.... þetta var eins og talað útúr mínu hjarta. Helvítis Hómerheilkennið er eitthvað sem að ætti að sjást í þessari blessuðu hnakkaþykktarmælingu.

Hvað ætli maður geti talið upp marga svona sjónvarpsþætti samt? Alveg gommu held ég. Og líklega náði bara brota-brot af þeim hingað á eyjuna.

Nafnlaus sagði...

Ef fram fer sem horfir í markvissu heiladrápi og staðalímyndaframleiðslu hinna misvitru þvergirðingsfábjána af báðum kynjum þá þarftu ekkert að endurhugsa þennan pistil eftir 30 ár. Bara copy paste.

Spunkhildur sagði...

Hip hip húrraaaa!

Rannveig sagði...

best finnst mér þegar heimilisfeður í þessum hrikalegaleiðinlegu „everybody loves jim the king of Queens - þáttum“ gera undirokaðri konu sinni þann „greiða“ að passa börnin hennar eða ganga sjálfir frá disknum sínum og uppskera óendanlegt þakklæti fyrir.