13.10.05

Sögur úr vöðunni

Í Grindhvalasundi heyrir maður margt skrítið og misheimskulegt.

Eitt hef ég reyndar ekki bara heyrt þar. Heldur annað slagið og út um allt. Og mér finnst þetta alltaf jafnfurðulegt. Það er bábiljan:

Þegar maður er óléttur má maður borða eins og maður vill.

Ehemm. Það er svo margt undarlegt, rangt og heimskulegt við þessa setningu að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja.

Í fyrsta lagi man ég ekki til annars en að ég hafi mátt borða eins og ég vil frá því einhvern tíma síðla barnsaldurs og þangað til, einmitt, ég varð ólétt. Þá þóttu mér nú koma hömlur á flest. Allavega á ég erfitt með að borða allt sem ég vil ef ég á að sneiða hjá salti og sykri. Þá er nú flest gott horfið af matseðlinum. Þó maður megi vissulega troða í sig eins og maður hefur lyst til af hráu spínati... sé bara ekki sérstaka ástæðu til að fagna því.

Það sem ég þykist vita að verðandi mæður sem tala svona séu að meina, sé hins vegar að þær fitni hvort sem er og þess vegna "megi" þær éta eins og þær geta í sig troðið af súkkulaði... að eigin áliti. Og láta löngun um að kýla eigin vömb verða tilmælum um æskilegt mataræði yfirsterkara. En ég verð nú bara að viðurkenna að ég get alveg étið skynsamlega í nokkra mánuði til þess að afkomandinn þrói með sér hluti eins og miðtaugakerfi. Og finnst það ekki einu sinni til neitt sérstaklega mikils mælst.

Undanfarið hef ég líka tekið einstaklega mikið eftir því hverjar í vöðunni eru með hringi og hverjar ekki. Komst reyndar svo að því að það er ekkert að marka það, þar sem margar eru þær með ólétta og feita putta og hafa þurft að taka þá af sér. Eins og ég þarf örugglega bráðum. Og svo heyrir maður líka tragedíur.

Ein hringlaus, sem leit út fyrir að geta verið dóttir mín, fór um daginn að tala um hvað væri gott að koma í sundið, hún hefði nefnilega eiginlega ekki hitt neinn dögum saman. (Ég var einmitt byrjuð að þróa með mér fordóma og fuss gagnvart kjeeellingum sem gætu ekki einu sinni þagað í leikfimitíma, en fattaði svo að fullt af þessum stelpum eru löngu kyrrsettar og hitta aldrei neitt annað fólk. Og skammaðist mín.) Allavega, einhverjar stúlkur voru að spjalla við þessa áðurnefndu og upp úr dúrnum kom að hún hafði verið ein eiginlega alla helgina, þar sem... "æi... kærastinn hennar (whatshisname) hafði aðeins skroppið að hitta vini sína á föstudegi og komið aftur á sunnudegi". Einhverjar vanþóknunarraddir risu nú upp í kringum stúlkuna en hún sagði, manni sínum til varnar: "Æi, honum finnst bara svo leiðinlegt að vera heima þegar ég þarf alltaf að vera að biðja hann að gera eitthvað..."

Það sló eiginlega þögn á pottinn. Mig langaði mest til að taka stelpugreyið með mér heim, þvo framan úr henni maskaraleifarnar, ættleiða hana og handrota svo vesalinginn sem barnaði hana.

Það er margt í mörgu.

11 ummæli:

Litla Skvís sagði...

Ehh.... ég veit ekki hvort að ég eigi að segja greyið stelpan því að hún greinilega leyfir honum að koma svona fram við sig.... en samt, greyið stelpan!

Og... mér fannst ógeðslega fúlt að mega ekki borða sushi á meðan ég var ófrísk. Var nýkomin uppá bragðið og svo var það bara ekki á matseðlinum lengur. Mig hefur sjaldan langað jafnmikið í sushi og þessa mánuði sem að ég var tvöföld. Forboðni ávöxturinn þú skilur ;)

Sigga Lára sagði...

Já, þetta er náttúrulega greindarskerðing... en kannski hefur mamma hennar bara ekki borðað neitt nema súkkulaði á meðgöngunni ;-)

Berglind Rós sagði...

Úff, þetta byrjar ekki vel... ætli manngreyið verði ekki bara að flytja niður í bæ þegar barnið verður fætt og þarf alltaf að vakna á nóttunni... :-/

Nafnlaus sagði...

Vonandi er þetta ekki þverskurður samfélagsins sem iðkar grindhvelasundið með þér Siggalára mín! Ég hélt að konum væri fullljóst að maður má einmitt EKKERT borða eða stunda, sem gott þykir, á meðgöngunni nema þá kynlíf! Húrra fyrir því! Ég myndi miklu frekar vilja eyða síðustu tveim mánuðunum í bjórdrykkju, snakkát, sígarettureykingar og sjónvarpsgláp en að stunda kynlíf!!
En það er svona... ekkert má sem gott er....
Og hvað stúlkuvesalinginn með maskara-draugapa-augun, sendu hana bara hingað vestur til mín. Ég gef henni gott að borða og skjólgóðan fatnað á hana og barnið. Kem henni fyrir uppi á kvisti. Verði hún matvinnungur má hún vera.

Sigga Lára sagði...

Já, svei mér ef það þyrfti ekki bara að koma henni út á land. Allra meina bót eins og allir vita. Og þessum manni hennar eitthvert lannnngt út á sjó.

fangor sagði...

hrmpf. ansvítans eymingjaháttur barasta. stelpugreyið.

Gadfly sagði...

Bentu stúlkukorninu endilega á Nornabúðina. Hún þarf greinilega á fávitafælu að halda.

Nafnlaus sagði...

Svo hefurðu hringinn á hendinni sem þú notar ekki til að handrota menn með - svo hann fari nú ekki illa - hringurinn sem sagt ...

SBS sagði...

Þversniðið af þessum aumingja stúlkum sitja dægrin löng á barnalandi.is sem er ekki mjög menningarleg síða...og þetta á að erfa landið dæs...dæs...

Spunkhildur sagði...

Já sendu hana í Nornabúðina. Okkur hefur tekist að koma vitinu fyrir fleiri en tvo. Mannhelvítinu þarf náttúrulega að koma í meðferð eða fyrir kattarnef. Flestir kjósa kattarnefið. Það má alveg éta á sig spik í óléttum! Ég gerði það án teljandi heilsufarskvilla en sit uppi með tvo tugi kílóa sem betur færu á hópi vannærðra í útlöndum. Það er nú það.

Nafnlaus sagði...

Finnst að leikskáldafélagið ætti að fara í svona grindhvalasund eins og það leggur sig. Útblástur hvelanna virðist vera öndvegis innblástur.

Um að gera að hafa hringinn á handrotunarhendinni. Ef hann skemmist við eina mannleysu, þá er hann nú varla mikið ekta. Það er líka meiri von til að meiða í leiðinni með hringnum.