31.12.05

Leik-árið

Var óvenju gjöfult, held ég bara. Hófst á nokkrum sýningum á Memento Mori, sem hefur hlotið fádæmaviðtökur, þó reyndar allt of fáir hafi séð það. En síðast þegar ég vissi hugði nú sú sýning á einhver heimsyfirráð. Strax í upphafi árs hófust líka æfingar á Patataz, eftir Björn Margeir í leikstjórn Bergs Ingólfs. Það aðstoðarleikstjóraðist ég og sýningarstýrði. Það var lifandis skelfingar ósköp gaman og lærdómsríkt. Og vissulega meðvitaður þáttur í því að rækta leikstjórann í sjálfri mér, sem ég hef áhuga á að athuga betur næstu árin. Í beinu framhaldi leikstýrði ég líka mínu fyrsta verkefni, Bara innihaldið eftir Sævar Sigurgeirsson. Tefldi reyndar ekki á eitt einasta tæpt vað, fékk með skotheldan þátt og fékk pottþétta leikara, þau Heiðu mína og Sigga Páls og síðan leikstýrði þetta sér auðvitað bara sjálft. Var frumsýnt á aðalfundi Hugleiks í vor, hvar ég lét líka kjósa mig í stjórn og varð í framhaldinu varaformaður þess ágæta félax.
Í sumar héldum við vinnan mín síðan leiklistarhátíð á Akureyri sem tóxt með miklum sóma.
Eftir umræður um fjölskylduleikrit á aðalfundi Hugleix ákváðum við Toggi, eftir margra ára vangaveltur, að hefjast handa við að skrifa Jólaævintýri Hugleix. Fengum til liðs við okkur Sigrúnu Óskars, einn frumhöfunda Hugleix, og Snæbjörn “Bibba” Ragnarsson, pönkara og ungleikskáld. Varð það samstarf allt hið farsælasta og náði yfir leikstjórn verksins og allt. Eitthvað hefur virkað, aðsóknartölur eru allavega fram úr öllum vonum og ekki sér enn fyrir endann á Ævintýrinu. Ein sýning er eftir, verður hún á þrettándanum, (sem er 6. janúar) og ættu menn sem ekki hafa nú þegar að drífa sig, allir sem einn.

Engin ummæli: